Tenglar

4. febrúar 2010 |

Hagræðingarmöguleikar í sameiningu sveitarfélaga

Kristján L. Möller.
Kristján L. Möller.
„Ég held við þurfum að gefa í ef eitthvað er. Sveitarfélögin þurfa að spara og hagræða eins og allir aðrir í þjóðfélaginu og við þurfum að búa til hið nýja Ísland miðað við íslenskar aðstæður því hvorki sveitarfélög, landið í heild eða aðrir verða reknir fyrir endalausar lántökur og ríkissjóður getur ekki þanist út með skatttekjum af skuldasöfnun“, sagði Kristján L. Möller, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, þegar Skessuhorn ræddi við hann eftir fund um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem haldinn var í Borgarnesi í gær. Hann segir ýmsa hagræðingarmöguleika í aukinni sameiningu sveitarfélaga. Það hafi sést í sameiningum víða. „Við eigum að nota þetta kreppuástand og færa aukin verkefni heim í hérað því þar eru mörg hagræðingartækifæri.“

 

Bent hefur verið á að núna á krepputímunum séu það helst fámennustu sveitarfélögin sem standi upp úr. Kristján tekur undir að svo sé en tekur fram að nokkur fámenn sveitarfélög fái miklar tekjur af opinberri starfsemi sem innan þeirra sé en segir hægt að spyrja hvort sanngjarnt sé að litlir hreppar fái allar tekjur af starfsemi eins og stóriðju, virkjunum eða hverju sem er. „Þetta er sjónarmið sem blandast inn í umræðuna um stóriðju og virkjanir og það má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að þær tekjur gagnist fleirum í stað þess að safna í sjóði. Inn í þetta blandast líka skipulagsmálin og hvernig eigi að vinna þau hér á landi.“

 

Á fundinum í Borgarnesi voru um 50 manns, flestir sveitarstjórnarmenn. Kristján segir góða mætingu hafa verið um land allt á þessa fundi. „Þetta eru mikilvægir fundir og nauðsynlegt að heyra líka sjónarmið þeirra sem eru á móti. Við eigum að leyfa okkur að hugsa stórt og fram í tímann. Hér erum við að tala um nýtt fyrirkomulag sveitarstjórnarmála árið 2014 og ég held að þessi vinna eigi eftir að skila af sér góðri niðurstöðu fyrir landsmenn alla“, sagði Kristján L. Möller.

 

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns. Nánar verður fjallað um fundinn í Borgarnesi í Skessuhorni í næstu viku.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31