Háhyrningar á ferð í Berufirði í Reykhólasveit
Ekki munu hvalir mjög algeng sjón inni á Berufirði, allra innst í hinum grunna og skerjótta Breiðafirði. Ýmsir sáu þó dálitla háhyrningavöðu þar á ferð í gærmorgun. Eiríkur smiður á Reykhólum sagði ljótt yfir því að vera ekki með myndavél þegar hann sá hvalina innst í Berufirði en Dagný á Seljanesi smellti af myndum heiman frá sér og fylgir hér ein þeirra. Hvalirnir munu hafa verið fimm talsins eða því sem næst.
Myndin er tekin til suðurs og lítið eitt að austri. Hvalirnir eru vinstra megin. Handan við sér til Tjaldaneshlíðar vestan Saurbæjar í Dalabyggð en efst til hægri er fannkrýndur Hafratindur (923 m).
Dagný var lengi að finna myndavélina þannig að hvalirnir voru komnir úr besta myndfærinu: „Svona er að vera að taka til, ég setti hana inn í skáp.“
Þrymur Sveinsson, fstudagur 22 jn kl: 14:28
Þegar pabbi og Jón afi voru eitt sinn að vitja um selanet í Hríseyjarlöndum kom allt í einu hópur af sel vaðandi upp úr sjónum með feiklegum hljóðum og mási. Á eftir þeim kom eitthvað grátt með skásporð. Þetta gerðist svo hratt að við rétt greindum það sem á eftir selunum kom. Svo var talað um að fundist hefðu dauðir selir um svæðið innanvert og út fyrir Stað á Reykjanesi. Allir með sömu bitumerkjum og bitnir í tvennt. Þetta hefur verið um og fyrir 1960 amk áður en Jón afi varð alveg blindur.
Kann einhver fleiri sögu af þessu fyrirbrigði. Ég man að Valdimar Jónssyni frá Árbæ var þetta ekki ókunnugt þegar ég sagði honum frá þessu.