Tenglar

22. júní 2012 |

Háhyrningar á ferð í Berufirði í Reykhólasveit

Háhyrningar á ferð um Berufjörð í Reykhólasveit. Myndina tók Dagný Stefánsdóttir á Seljanesi.
Háhyrningar á ferð um Berufjörð í Reykhólasveit. Myndina tók Dagný Stefánsdóttir á Seljanesi.

Ekki munu hvalir mjög algeng sjón inni á Berufirði, allra innst í hinum grunna og skerjótta Breiðafirði. Ýmsir sáu þó dálitla háhyrningavöðu þar á ferð í gærmorgun. Eiríkur smiður á Reykhólum sagði ljótt yfir því að vera ekki með myndavél þegar hann sá hvalina innst í Berufirði en Dagný á Seljanesi smellti af myndum heiman frá sér og fylgir hér ein þeirra. Hvalirnir munu hafa verið fimm talsins eða því sem næst.

 

Myndin er tekin til suðurs og lítið eitt að austri. Hvalirnir eru vinstra megin. Handan við sér til Tjaldaneshlíðar vestan Saurbæjar í Dalabyggð en efst til hægri er fannkrýndur Hafratindur (923 m).

 

Dagný var lengi að finna myndavélina þannig að hvalirnir voru komnir úr besta myndfærinu: „Svona er að vera að taka til, ég setti hana inn í skáp.“

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, fstudagur 22 jn kl: 14:28

Þegar pabbi og Jón afi voru eitt sinn að vitja um selanet í Hríseyjarlöndum kom allt í einu hópur af sel vaðandi upp úr sjónum með feiklegum hljóðum og mási. Á eftir þeim kom eitthvað grátt með skásporð. Þetta gerðist svo hratt að við rétt greindum það sem á eftir selunum kom. Svo var talað um að fundist hefðu dauðir selir um svæðið innanvert og út fyrir Stað á Reykjanesi. Allir með sömu bitumerkjum og bitnir í tvennt. Þetta hefur verið um og fyrir 1960 amk áður en Jón afi varð alveg blindur.
Kann einhver fleiri sögu af þessu fyrirbrigði. Ég man að Valdimar Jónssyni frá Árbæ var þetta ekki ókunnugt þegar ég sagði honum frá þessu.

Guðjón D. Gunnarsson, fstudagur 22 jn kl: 14:50

Vorið 1944 komu nokkrir háhyrningar inn á Gilsfjörð. Einn strandaði á Þjófaskerjunum fram undan Garpsdal. Sent var eftir pabba, til að skjóta hann, og hóað í sveitungana í hvalskurðinn. Allir tóku eins og þeir kærðu sig um.
Nokkrir athafnamenn tóku sig svo saman um að safna mannskap og bátum til að reka afganginn af vöðunni á land. Gekk það vonum framar og náðust 6 - 8 hvalir, flestir á Lægri Teigunum fyrir innan Múla.

Guðjón D. Gunnarsson, fstudagur 22 jn kl: 15:45

Ég man eftir sögum af helminguðum selum, en ekki get ég tímasett þær og hef ekki fyrr heyrt um sjónarvotta. Þetta var talið verk háhyrninga en mér finnst frásögn Þryms fremur benda til hákarls/hákarla. Háhyrningar rífa frekar bráðina í sundur en hafa ekki tennur til að klippa.

Jónas Ragnarsson, laugardagur 23 jn kl: 10:07

Það mun hafa verið fimmtudaginn 8. júní 1944 sem tólf háhyrningar voru reknir á land í Gilsfirði. Þeir voru fimm til tíu metra langir. "Er það talið einsdæmi að hvala verði vart á þessum slóðum," sagði í Þjóðviljanum 13. júní.

Í Speglinum 30. júní var þetta talið tengjast lýðveldisstofnuninni. "Er gott til þess að vita að oss berast svo frumleg samúðarskeyti, sem eru eitthvað áþreifanlegri en orðaskvaldrið."

Eins og kunnugt er var Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, ættaður úr Austur-Barðastrandarsýslu. Afi hans var Jón Jónsson hreppstjóri í Djúpadal í Gufudalssveit. Amma Sveins, Sigríður Jónsdóttir, var Breiðfirðingur.

Guðjón D. Gunnarsson, sunnudagur 24 jn kl: 22:18

Þakka þér fyrir þennan fróðleik, Jónas. Sveinn hefur þá sennilega verið frændi minn. Gott að vita, að ég var ekki að ýkja í þetta skiptið, með fjölda hvalanna.

Orn Eliasson, rijudagur 26 jn kl: 01:19

Faeddur og uppalinn til tiu ara aldurs a Reykholum (Stodinni). For oft a vorin med fullordnum ut i eyjar i hlunnindum sem strakur. 1958 eda 1959 (kannski 1960) man eg eftir af hafa fundid rekinn framhlutann af sel sem hafdi verid snyrtilega bitinn i tvennt. Mer datt helst i hug ad hakarl hafi verid par ad verki. Bestu kvedjur til ykkar allra. Ossi.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30