Tenglar

15. september 2015 |

Hálsaleiðin margfræga ein eftir

Vegarkaflinn sem eftir er. Klippt úr korti á vef Landmælinga Íslands.
Vegarkaflinn sem eftir er. Klippt úr korti á vef Landmælinga Íslands.
1 af 7

Núna þegar lokið er við þann kafla Vestfjarðavegar (Mjóifjörður - Kjálkafjörður) í vestasta hluta Reykhólahrepps, sem formlega var opnaður í síðustu viku, er eftir einn kafli með malarslitlagi á leiðinni milli höfuðborgarsvæðisins og suðurfjarða Vestfjarða, og jafnframt sá langversti. Það er 27 km langur kafli í Gufudalssveit sem liggur yfir Hjallaháls, fyrir Djúpafjörð, yfir Ódrjúgsháls og fyrir Gufufjörð og langleiðina út að bænum á Skálanesi. Örvarnar á fyrstu mynd benda á endimörk þessa vegarkafla. Mikinn hluta þessarar leiðar er daglegur skólaakstur á vetrum.

 

Í fjölda ára hefur lagning nýs vegar í stað þessa einstæða óvegar verið í pattstöðu. Núna er aftur á móti unnið að nýju umhverfismati eftir að Skipulagsstofnun heimilaði á liðnu vori skv. beiðni Vegagerðarinnar endurupptöku fyrra mats varðandi veg um Teigsskóg við vestanverðan Þorskafjörð. Endurupptakan felur meðal annars í sér, að í stað þess að Skipulagsstofnun úrskurði um umhverfisáhrif vegarins veiti hún álit.

 

Umhverfismatið er gert samkvæmt skipulagslögum sem tóku gildi 2011, en það þýðir að endanleg ákvörðun um framkvæmdina er ekki hjá Skipulagsstofnun heldur sveitarstjórn, sem gefur út framkvæmdaleyfi. Í lögunum segir um þetta efni:

 

Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Þær fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum.

  

Samkvæmt aðalskipulagi Reykhólahrepps skal nýr láglendisvegur lagður um austurströnd Þorskafjarðar en ekki gerð jarðgöng, eins og tillögur hafa komið fram um. 

 

Ingvi Árnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið á laugardag, að við endurupptöku umhverfismatsins séu teknar inn breytingar sem gerðar hafa verið á veglínum frá því fyrra matið var gert. Hann kveðst vonast til að hægt verði að ljúka nýja umhverfismatinu á næsta ári, en ekki sé þó víst að hægt verði að hefja framkvæmdir á því ári. Það ætti hins vegar að verða hægt á árinu 2017, en þá sé veruleg fjárveiting til verksins skv. samgönguáætlun. Rétt er þó að taka fram, að á endanum ráða fjárlög.

 

Mynd nr. 2 er skjáskot úr fréttum Stöðvar 2 í fyrra, þar sem sjá má steypubíl puða upp Ódrjúgsháls. Horft er niður í fjöruna við Djúpafjörð vestanverðan.

 

Myndir nr. 3 og 4 tók Jónas Ragnarsson fyrir nokkrum árum á núverandi þjóðvegi (landshlutatengingu) í Djúpafirði og Gufufirði í Gufudalssveit í Reykhólahreppi.

 

Mynd nr. 5 sýnir auk annars leið Þ-H (dökkblá brotin lína) sem núna er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun.

 

Á mynd nr. 6 má sjá hinar fjölbreyttu útfærslur á nýju vegstæði sem Vegagerðin hefur gert.

 

Mynd nr. 7 er úr vefmyndavél Vegagerðarinnar, þar sem sér niður á S-beygjurnar í snarbrattanum utan í Ódrjúgshálsi. Í bleytutíð á sumrum þegar yfirborð vegarins er flughál drulla þarf stundum að setja keðjur undir flutningabíla til að komast upp.

 

Sjá einnig:

27.05.2015  Leiðin þar sem hægt sé að leggja hvað öruggastan veg (gleðileg tíðindi, segir vegamálastjóri)

12.05.2013  Veglínu breytt og rafmagn í þágu landeigenda? (veglínuteikning Kristjáns Kristjánssonar hjá Vegagerðinni í svipuðum anda og hugmynd Kristins Bergsveinssonar frá Gufudal sem hérna er greint frá)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31