Hamingjudögum lýkur með Furðuleikum á Ströndum
Á Furðuleikum er keppt í ýmsum skringilegum íþróttagreinum sem eiga það sameiginlegt að vera afbragðs skemmtun og hafa ekki hafa hlotið viðurkenningu Alþjóða Ólympíunefndarinnar. Meðal þess sem fólk getur prófað á Furðuleikum er til dæmis keppni í greinunum öskri, sviðalappaspretti og girðingarstaurakasti, en þar verður gerð atlaga að heimsmeti Gunnars Þórs Garðarssonar, fyrrum vinnumanns á Felli í Kollafirði, sem er 19,90 metrar. Þess má geta að heimsmet alþingismanna er 18,10 metrar en þeim árangri náði Kristinn H. Gunnarsson á þriðju leikunum. Segja má að kast Kristins hafi verið alger sleggja, eins og það er kallað á íþróttamáli.
Þá má einnig nefna greinar eins og kvennahlaup, trjónufótbolta og nýja grein sem nefnist ruslatunnuskotfimi, en hún er svo flókin og erfið að hún verður í þróun fram á síðasta dag. Síðast en ekki síst verður á dagskránni skítkast með lifandi skotmarki sem mikil leynd hvílir yfir hvert er.
Andlitsmálun og blöðrusala verður í boði fyrir yngri kynslóðina og í kaffistofu Sauðfjársetursins verður geysilega veglegt hlaðborð á boðstólum gegn vægu verði að vanda. Sögusýningin Sauðfé í sögu þjóðar verður opin eins og endranær.
Aðgangur á Furðuleikana er ókeypis fyrir alla og alls engar kröfur eru gerðar til keppenda um færni, þol eða fyrri reynslu í íþróttum. Skráning í greinar fer fram á staðnum.