Harasystur hituðu upp í Barmahlíð
Harasystur úr Hveragerði, Rakel og Hildur Magnúsdætur, skemmtu á þorrablótinu á Reykhólum á laugardagskvöldið en völdu óvenjulegan stað til að hita upp. Það gerðu þær í Barmahlíð, dvalarheimili aldraðra á Reykhólum, þar sem þær sungu og dönsuðu og hristu upp í liðinu með aðstoð barna sem dönsuðu líka. Ein kona komst ekki fram í salinn á tónleikana og þá brugðu þær sér einfaldlega inn til hennar. Rakel er íþróttakennari og mikil áhugakona um hreyfingu og leikfimi eldri borgara. Hún hefur lengi séð um leikfimi bæði á Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði og á Hótel Örk þegar hópar eldri borgara koma þangað. Því má segja að hún hafi verið á heimavelli í Barmahlíð á laugardag.
Ef til vill hefur það líka haft einhver áhrif á staðarvalið fyrir upphitunina, að Harasystur eru mágkonur og vinkonur Hrefnu Hugósdóttur, hjúkrunarforstjóra í Barmahlíð. Stefán Magnússon eiginmaður hennar (og Harabróðir) er íþróttakennari við Reykhólaskóla.
Því má bæta við, að Harasystur koma fram í forkeppni Eurovision um næstu helgi.