Tenglar

23. júlí 2008 |

Harkaleg orðaskipti varðandi vegaframkvæmdir

Ætlunin er að fara leið B.
Ætlunin er að fara leið B.

Ólík sjónarmið varðandi vegaframkvæmdir hafa í dag gengið á víxl í fréttamiðlum, þar á meðal varðandi lagningu vegar um Teigsskóg við Þorskafjörð. Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, sendi frá sér tilkynningu þar sem hann sakar samgönguráðherra um skilningsleysi og nefnir sérstaklega fyrirhugaðan veg um Teigsskóg ásamt Dettifossvegi og Gjábakkavegi (Lyngdalsheiðarvegi). Einnig sakar hann Vegagerðina um óþolandi framkomu. Vegagerðin mótmælti ummælum hans umsvifalaust. Líka sendi Bjarnveig Guðbrandsdóttir á Tálknafirði frá sér hvassyrtan pistil og telur hún ásakanir Bergs um skilningsleysi koma úr hörðustu átt.

 

Í tilkynningu sinni segir framkvæmdastjóri Landverndar meðal annars:

 

„Það er kominn tími til þess að samgönguyfirvöld fari að sýna náttúru Íslands tilhlýðilega virðingu. Það er með öllu óþolandi að hvernig Vegagerðin er farin að hegða sér eins og ríki í ríkinu á meðan samgönguráðherra skellir við skollaeyrum í hverju málinu á fætur öðru," segir Bergur. „Svo virðist sem samgönguráðherra skorti annað hvort skilning á náttúruvernd eða pólitískt þor til þess að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða."

 

Vegagerðin svaraði með annarri tilkynningu, þar sem því er mótmælt að stofnunin hagi sér eins og ríki í ríkinu. Þar segir meðal annars:

 

„Ákvarðanir um vegalagningu, til dæmis varðandi Dettifossveg, Lyngdalsheiðarveg og Vestfjarðaveg um Teigsskóg, eru ekki teknar að óathuguðu máli eins og stundum mætti ætla af umræðunni. Í öllum þessum tilvikum hefur farið fram ítarlegt mat og skoðun á mögulegum veglínum. Vegagerðin leggur fram möguleikana og mælir gjarnan með einum umfram annan. Mat á umhverfisáhrifum fer fram þar sem farið er yfir þá þætti er snúa að umhverfinu og náttúrunni. Skipulagsyfirvöld, þ.e. sveitarstjórnir, taka síðan ákvörðun um skipulag og þar með talda veglínuna og gefa út framkvæmdaleyfi."

 

Bjarnveig Guðbrandsdóttir, sem á sæti í hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps, gerir eftirfarandi athugasemdir við ummæli Bergs Sigurðssonar:

 

„Framkvæmdastjórinn mætti á grænfánahátíð á Tálknafirði í vor og kvartaði yfir því að ekki væri hægt að komast fram og til baka á einum degi þar sem ekki er flogið nema einu sinni á dag og af einhverjum ástæðum hugnaðist honum ekki að koma akandi þar sem að hans sögn er um afar slæma vegi að ræða, en þar sem maðurinn er mikilvægur brá hann á það ráð að „fá far" í einkaflugvél Ómars Ragnarssonar. VAR EINHVER AÐ TALA UM MENGUN?

 

Honum verður tíðrætt um „náttúruverndarhagsmuni" en ekki hefur hann heyrst nefna réttindi íbúanna hér til að ferðast á mannsæmandi vegum, en hvort sem honum líkar betur eða verr þá býr hérna fólk sem telur sig mikilvægara heldur en eitthvert kjarr sem verndunarsinnar kjósa að kalla skóg. Framkvæmdastjórinn veit kannski ekki, eða vill ekki vita, að um þessa hálsa sem nú hefur verið ákveðið að leggja af sem vegarstæði er daglega, yfir vetrartímann, ekið börnum í skóla, en auðvitað eru þetta bara dreifbýlisbörn, ekkert nálægt því jafnmikilvæg og börnin í hundrað og einum. Mér finnst koma úr hörðustu átt að saka samgönguráðherra um skilningsleysi og væri kannski rétt af framkvæmdastjóranum að líta í eigin barm."

 

> Sakar samgönguráðherra um skilningsleysi

> Vegagerðin hagar sér ekki eins og ríki í ríkinu

> Framkvæmdastjórinn ætti að líta í eigin barm

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31