Tenglar

22. apríl 2017 | Sveinn Ragnarsson

Harpa á Stað vann Morgunblaðsskeifuna

 

Harpa Björk Eiríksdóttir á Stað hlaut Morgunblaðsskeifuna sem var veitt í 60. sinn á Skeifudeginum sem nú var á sumardaginn fyrsta. Það er hestamannafélagið Grani á Hvanneyri sem stendur fyrir Skeifudeginum.

 

Meðfylgjandi myndir og greinin um hestamennsku Hörpu eru úr Skeifublaðinu sem gefið er út af þessu tilefni. 

Eins og sjá má á myndunum gerði Harpa ýmsar sirkuskúnstir með honum Mána sínum, losaði af honum hnakkinn án þess að fara af baki og reið svo berbakt á tölti fyrirhafnarlaust. Á trippaprófi hlaut Máni 9,34 í einkunn.

 

Skeifan fer jafnan til þess nemanda Landbúnaðarháskólans sem fær hæstu meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum.

Eru Hörpu færðar hamingjuóskir með þennan glæsilega árangur.

 

Hér er tafla yfir hrossin sem Harpa vann með, og segir að hafi unnið verðlaunin, hún hafi bara verið farþegi.

 

Tamningartrippi

Máni frá Stað

4 vetra rauður

F: Krapi frá Fremri-Gufudal

M: Lukkustjarna frá Glaðheimum

Eigandi: Harpa Björk Eiríksdóttir

Reiðhestur

Völundur frá Akranesi

9 vetra móálóttur

F: Lokkur frá Fellskoti

M: Maístjarna frá Akranesi

Eigandi: Guðný Linda Gísladóttir

Reiðhestur 2

Sigur-Skúfur frá Hvanneyri

12 vetra brúnn, stjörnóttur

F: Sólon frá Skáney

M: Hremming frá Hvanneyri

Eigendur: Edda Þorvaldsdóttir og Guðlaugur Antonsson

 

                                                   Völundur bara settist...

Harpa Björk mætti galvösk af Vestfjörðum með hann Mána sinn, fyrsta tryppið úr hennar ræktun og svo Völund frá Akranesi sem Guðný (verknámsbóndinn frá því árið áður) á Dalsmynni lánaði henni. Fram undan voru áhugaverðir mánuðir sem gáfu endalausar sögur.

Máni, aðeins á fjórða vetri og hafði verið teymdur nokkrum sinnum mætti hress og kátur. Reiðhöllin var nú ekkert endilega eitthvað sem hann hafði séð áður, komandi úr sveitarómantíkinni fyrir vestan.

Svo var hann svolítið á því að hann fengi bara að ráða og var ekkert á því að hann ætti eitthvað að hreyfa sig. Harpa þurfti að láta Mána vita að það væri hún sem réði og það tókst greinilega eftir smá byrjendaerfileika.

Máni var fljótur að átta sig á hvað væri gaman að hreyfa sig og breytingarnar frá fyrstu tímunum ótrúlegar. Hann er samt ekki vanur né hrifinn af umferðarmenningu Borgarfjarðar og fannst sumir bílar fara fullhratt fram hjá sér og ákvað að sýna smá dansspor og hæfileikann að snerta ekki jörðina á einum tímapunkti en var fljótur að komast niður á jörðina aftur í hvert skipti. Máni sýndi og sannaði að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og enduðu þau Harpa trippaprófið á því að sýna hann á stökki berbakt.

Völundur ákvað að hann væri of góður fyrir reiðhöllina og að hún væri bara of lítill fyrir hans persónuleika. Hann elskaði útreiðar og ekkert mál þangað til að hann sá hurðina á reiðhöllinni og þá sérstaklega þegar æfingarnar fyrir knapamerkið byrjuðu.

Allt var gert til að auðvelda honum ganginn og endaði hann á stultum svona miðað við að hann er ekki sá stærsti en þegar vika var í próf þá settist drengurinn bara á rassinn og harðneitaði. Svo Harpa viðurkenndi sigur og fékk Sigur-Skúf frá Eddu og Gulla að láni og hann var svo mikill snillingur og blóðið rann aðeins hægar í honum svo próf stressið náði engu marki hjá Hörpu og rúllaði hún að öryggi í gegnum prófið. Völundur og Harpa eiga frábært samband í dag út í reiðtúrum 

 


Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31