Harpa endurkjörin í stjórn Ferðamálasamtakanna
Harpa Eiríksdóttir ferðamálafræðingur frá Stað í Reykhólasveit var endurkjörin í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða á aðalfundi þeirra á Patreksfirði í síðasta mánuði. Hún var fyrst kjörin í stjórn samtakanna á aðalfundi þeirra í Trékyllisvík vorið 2013. Ár hvert er helmingur stjórnar kosinn til tveggja ára í senn, en formaður er kosinn árlega.
Núna er stjórn samtakanna þannig skipuð: Daníel Jakobsson formaður; Harpa Eiríksdóttir, Nancy Bechtloff og Þórdís Sif Sigurðardóttir, sem kosnar voru til tveggja ára; og Arinbjörn Bernharðsson, Einar Kristinn Jónsson og Þorsteinn Másson, sem eiga seinna árið eftir.
Harpa á einnig sæti í ráðgjafaráði Markaðsstofu Vestfjarða, sem skipað er þremur fulltrúum Ferðamálasamtaka Vestfjarða og tveimur fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga.
Á myndinni sem tekin var núna í sumarlokin er Harpa á Upplýsingamiðstöð ferðamanna í anddyri Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum, en hún hefur veitt hvoru tveggja forstöðu undanfarin ár.