Tenglar

22. febrúar 2011 |

Harpa frá Stað ráðin í nýja stöðu ferðamálafulltrúa

Harpa Björk Eiríksdóttir.
Harpa Björk Eiríksdóttir.
Harpa Eiríksdóttir frá Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit hefur verið ráðin í nýtt starf ferðamálafulltrúa Reykhólahrepps. Staða þessi er tímabundin enn sem komið er. Harpa er ráðin a.m.k. í vor og sumar en ráðningin getur náð allt að heilu ári, komi til styrkir til verkefna sem hún mun sjálf leita eftir og gætu staðið undir launakostnaði. Ráðning Hörpu er í tengslum við ferðamálanám hennar í Oxford á Englandi þar sem hún dvelst núna.

 

Harpa Björk Eiríksdóttir er tæplega 29 ára að aldri. Hún ólst upp á Stað til sextán ára aldurs. Þá fór hún sem skiptinemi til Þýskalands eitt ár en settist svo að í Reykjavík vegna náms og vinnu. Fyrir jólin 2004 lauk Harpa stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, félagsmálabraut, og var næsta árið aðstoðarverslunarstjóri hjá 10-11 í Kópavogi. Hún fór í Leiðsögumannaskólann og var síðan tvö sumur fararstjóri hjá Íshestum í Gullna hringnum, sem eru sex daga hestaferðir um Suðurland.

 

Haustið 2007 fluttist Harpa út til Derby á Englandi ásamt kærasta sínum, Gunnari Þór Reynissyni úr Keflavík, sem þá var að byrja í mótorsportverkfræði við háskólann þar. Yfir sumartímann var Harpa heima á Íslandi, vann við hestaferðir hjá Svaðilfara í Ísafjarðardjúpi og aðstoðaði sitt fólk á Stað í sauðburði og smalamennskum. „Ég er mikil sveitamanneskja í mér og þó að nær þrettán ár séu liðin síðan ég flutti að heiman á ég ennþá kindur, kú og hesta heima í sveitinni“, segir hún.

 

Á síðasta ári fluttust þau Harpa og Gunnar Þór til Oxford á Englandi, þar sem hún byrjaði í ferðamálanámi við Oxford Brookes háskólann. Gunnar Þór er núna að ljúka meistaraprófi í hönnun kappakstursvéla við sama háskóla.

 

„Á öðru ári eigum við að fara í verknám sem tengist ferðamennsku og mér fannst mjög áhugavert og skemmtilegt að komast heim í sveitina mína og  byggja upp og efla þá ferðamennsku sem þar er fyrir“, segir hún.

 

„Ég veit að þetta verður verðugt verkefni og hlakka til að takast á við það. Gaman verður að geta hjálpað ferðaþjónum á svæðinu og öðrum sveitungum að kynna þá frábæru náttúru og afþreyingu sem héraðið býr yfir. Mitt fyrsta verkefni verður að koma upp heimasíðu um ferðamál í Reykhólahreppi og vonast til að fá hugmyndir og skemmtilega texta frá sveitungum um okkar frábæru sveit. Ég kem heim í sveitina í lok maí og mæti formlega til starfa 1. júní en þó mun ég áður vinna að verkefnum sumarsins héðan frá Oxford. Ég veit að það er spennandi ár framundan.“

 

Þeir ferðaþjónar og aðrir sem vilja hafa samband við Hörpu vegna hins nýja starfs geta sent henni tölvupóst. Allir sem hafa einhverjar hugmyndir og tillögur eru hvattir til að gera það.

 

Athugasemdir

Hanna Lára, mivikudagur 23 febrar kl: 09:24

Frábært til hamingju og gangi þér vel. :) verður gaman að sjá ferðamennskuna lifna við.

Hjalti Hafþórsson, mivikudagur 23 febrar kl: 10:05

Ti hamingju með nýju stöðuna Harpa, sannarlega tímabært að taka á þessum málum hjá okkur....

Hlynur Stefánsson, mivikudagur 23 febrar kl: 13:40

Til hamingju Harpa þú rúllar þessu upp.

Indiana Svala Ólafsdóttir, mivikudagur 23 febrar kl: 17:22

Til hamingju með nýja starfið Harpa mín, flott kona í spennandi starfi.

Harpa Eiríksdóttir, mivikudagur 23 febrar kl: 21:51

Takk kærlega fyrir og þetta verður spennandi verkefni og jafnframt mjög skemmtilegt

Erla Guðjínsdóttir, fstudagur 04 mars kl: 10:46

Hjartanlega til hamingju elsku Harpa ,,okkar bestu óskir um gott og farsællt gengi í nýa starfinu,,,,( ásamt skólanum ),,erum svo mikið stollt af þér,,þér mun farnast mikið vel ,með allt þetta verkefni,,kveðja gamla og gamli í Keflavíkinni,,,
Góðar kveður til fjöldskyldu þinnar, frá okkur,,

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30