Harpa kjörin í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða
Harpa Eiríksdóttir ferðamálafræðingur á Stað í Reykhólasveit, framkvæmdastjóri Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum, var kjörin í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða á aðalfundi samtakanna í Árnesi í Trékyllisvík. Þar var einnig kosinn nýr formaður, Ásgerður Þorleifsdóttir hjá Borea Adventures á Ísafirði, fyrrum verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Sigurður Atlason á Hólmavík, framkvæmdastjóri Galdrasýningar á Ströndum, baðst eindregið undan endurkjöri.
Sigurður hafði gegnt formennsku í Ferðamálasamtökum Vestfjarða í fjögur ár og setið í stjórn tvö ár þar á undan. Á aðalfundinum í Bjarkalundi fyrir ári baðst hann einnig undan endurkjöri en féllst þá á að verða við áskorunum um að gegna formennskunni eitt ár í viðbót.
Fyrsti fundur hinnar nýju stjórnar Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður á þriðjudag.
Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða skipa nú:
- Ásgerður Þorleifsdóttir, Ísafirði, formaður
- Elfar Logi Hannesson, Ísafirði
- Ester Rut Unnsteinsdótir, Súðavík
- Harpa Eiríksdóttir, Reykhólasveit (info@reykholar.is)
- Jón Þórðarson, Bíldudal
- Nancy Bechtloff, Ísafirði
- Valgeir Benediktsson, Trékyllisvík
Sjá einnig viðtal við Ásgerði Þorleifsdóttur, hinn nýja formann samtakanna:
bb.is 17.05.2013 Gjaldtaka styður uppbyggingu og öryggi