Tenglar

7. september 2013 |

Hátíðarmessan á 50 ára vígsluafmæli Reykhólakirkju

Reykhólakirkja snemma að morgni páskadags árið 2011. Ljósm. hþm.
Reykhólakirkja snemma að morgni páskadags árið 2011. Ljósm. hþm.
1 af 8

Messan í tilefni af 50 ára vígsluafmæli Reykhólakirkju hefst kl. 14 á morgun, afmælisdaginn 8. september. Sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Elínu Hrund Kristjánsdóttur sóknarpresti. Kirkjukór Reykhólaprestakalls leiðir söng undir stjórn Viðars Guðmundssonar organista, Hildur Heimisdóttir leikur á selló, Michael Roger Wågsjö leikur á trompet og Hrefna Jónsdóttir spilar og syngur ljúfa sálma. Að messu lokinni verður kirkju- og afmæliskaffi í borðsal Reykhólaskóla.

 

Reykhólakirkja var vígð 8. september árið 1963, sem þá bar einnig upp á sunnudag, en smíði hennar hófst árið 1958. Hún er helguð minningu Þóru Einarsdóttur í Skógum, móður þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar.

 

Kirkjuna teiknaði Jens-Peter Matull á vegum Harðar Bjarnasonar húsameistara ríkisins. Að innan er hún teiknuð af Sveini Kjarval arkitekt, þar á meðal prédikunarstóll, altari og ljós. Bekkina og lespúltið teiknaði Jón Ólafsson arkitekt. Tvo steinda glugga í kirkjuna gerði Leifur Breiðfjörð glerlistamaður um tveimur áratugum eftir að hún var tekin í notkun.

 

Altaristöfluna í kirkjuna málaði danski listamaðurinn Löwener árið 1834 og var hún gjöf Þóreyjar Gunnlaugsdóttur á Reykhólum, móður Jóns Thoroddsens, til þeirrar kirkju sem þá var á Reykhólum (hinnar næstu á undan þeirri sem núverandi kirkja leysti af hólmi). Jón gegndi ungur herþjónustu í Danmörku en móðir hans sendi honum fé til að kaupa sig lausan úr henni og bað hann að kaupa altaristöflu fyrir afganginn. Jón var leystur frá herþjónustunni árið 1848 og kom heim til Íslands árið 1850 og má ætla að þá hafi taflan komið. Gunnar Thoroddsen beitti sér fyrir því ásamt öðrum afkomendum Jóns Thoroddsens að láta gera upp töfluna. Frank Ponzi listamaður og forvörður sá um það verk.

 

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 10. september 1963 eða tveim dögum eftir kirkjuvígsluna er ítarleg frásögn og samantekt um þennan viðburð frá Sveini Guðmundssyni bónda og kennara á Miðhúsum í Reykhólasveit, fréttaritara blaðsins um áratugaskeið og einhverjum þeim ötulasta. Hann greinir þar ekki aðeins frá athöfninni sjálfri heldur segir hann einnig rækilega frá byggingu kirkjunnar og þeim sem að henni komu með einum eða öðrum hætti. Upphaf frásagnar Sveins er á þessa leið: 

  • Klukkan 2 hófst athöfnin með því að biskup, prestar og sóknarnefnd fóru í skrúðgöngu frá gömlu kirkjunni og gengu til nýju kirkjunnar. Þá hófst sjálf vígslan, biskupinn yfir Íslandi hr. Sigurbjörn Einarsson vígði kirkjuna. 
  • Kirkjukór Reykhólakirkju söng undir stjórn Jóns Ísleifssonar, söngstjóra úr Reykjavík. Sóknarpresturinn séra Þórarinn Þór prédikaði, vígsluvottar voru þeir séra Árelíus Níelsson, séra Jón Árni Sigurðsson, sem báðir hafa verið þjónandi prestar á Reykhólum, séra Sigurður Kristjánsson, Ísafirði, en hann er Reykhólasveitungur að uppruna, og nágrannaprestur, séra Tómas Guðmundsson Patreksfirði. 
  • Skírð voru þrjú börn í messunni og síðan var almenn altarisganga. Að lokum sungu kór og kirkjugestir þjóðsönginn og meðhjálpari las bæn. Þess má geta að meðhjálparinn Ólafur Þorláksson hefur verið meðhjálpari í Reykhólakirkju yfir 30 ár og mun aðeins einu sinni ekki hafa getað mætt við guðsþjónustu á Reykhólum öll þessi ár. 
  • Margt fólk var viðstatt vígsluathöfnina eða 300-400 manns og var athöfnin öll hin virðulegasta. Síðan var haldið að Bjarkalundi og setin veizla í boði Barðstrendingafélagsins. Þar voru margar ræður fluttar og var hófið hið ánægjulegasta.

 

Því má skjóta hér inn, að vígsluvotturinn séra Sigurður Kristjánsson frá Skerðingsstöðum í Reykhólasveit, þá prestur á Ísafirði og síðar prófastur, var faðir sr. Agnesar biskups.

 

Í lok frásagnar sinnar telur Sveinn upp margvíslegar gjafir sem kirkjunni höfðu borist. Listinn er þannig:

  1. Prédikunarstóll gefinn af Breiðfirðingafélaginu í Reykjavík.
  2. Skírnarfontur gefinn af Ragnheiði Hákonardóttur.
  3. Skírnarskál, gefin af börnum Hákonar Magnússonar og Arndísar Bjarnadóttur, sem bjuggu á Reykhólum, og börnum Jónasar Sveinssonar og Kristínar Guðmundsdóttur, sem bjuggu á Borg í Reykhólasveit.
  4. Kaleikur, gefinn af Guðmundi Andréssyni, gullsmið í Reykjavík.
  5. Guðbrandsbiblía, gefin af Sigríði Einarsdóttur, Miðtúni 70 í Reykjavík.
  6. Hátíðamessuskrúði, gefinn af börnum séra Jóns Þorvaldssonar prests á Stað í Reykhólasveit.
  7. Messuskrúði, gefinn af séra Árelíusi Níelssyni, Reykjavík.
  8. Kertastjakar á altari, gefnir af Steinunni Júlíusdóttur og Játvarði J. Júlíussyni, Miðjanesi, Reykhólasveit.
  9. Krusifix á altari, gefinn af séra Arngrími Jónssyni í Odda og konu hans Guðrúnu Hafliðadóttur.
  10. Kertastjaki, gefinn af Ingibjörgu, Ragnheiði, Branddísi og Halldóru Árnadætrum.
  11. Flosteppi á kór og dregill á kirkjugólf, gefið af kvenfélaginu Liljan í Reykhólasveit.
  12. Málning á kirkjuna að utanverðu, gefin af Kaupfélagi Króksfjarðar.
  13. Kr. 50.000 gefnar af hreppsnefnd Reykhólahrepps.
  14. Barðstrendingafélagið í Reykjavík gefur kirkjunni veizlu fyrir vígslugesti að hóteli sínu að Bjarkalundi.
  15. Höllustaðasystkinin í Reykhólasveit gáfu kirkjunni 14 þúsund krónur.
  16. Kertastjaki, gefinn af systkinum frá Kambi í Reykhólasveit.
  17. 30 sálmabækur, gefnar af systkinum frá Skerðingsstöðum í Reykhólasveit.
  18. Börn Þórarins Árnasonar frá Miðhúsum gáfu 30 bikara til notkunar við altarisgöngu.
  19. Kertastjaki var gefinn af börnum Steinunnar Guðbrandsdóttur frá Miðjanesi.
  20. Altarissilfur, patína, kaleikur og oblátubaukar, gefið af Helgu Kaaber.

 

Skrá um presta á Reykhólum í tíð núverandi kirkju, sem Þrymur Sveinsson fræðimaður og sagnfræðinemi frá Miðhúsum (sonur áðurnefnds Sveins Guðmundssonar fréttaritara) tók saman:

  • Þórarinn Þór 1948-1969
  • Guðmundur Óskar Ólafsson 1969-1970
  • Sigurður Helgi Guðmundsson 1970-1972
  • Sigurður Pálsson 1972-1977
  • Jón Kr. Ísfeld 1977-1979
  • Valdimar Hreiðarsson 1979-1986
  • Bragi Benediktsson 1986-2005
  • Sjöfn Þór 2005-2008
  • Elína Hrund Kristjánsdóttir frá 2008

 

Myndirnar sem hér fylgja nema nr. 1 og nr. 8 eru úr skjalasafni Húsameistara ríkisins á Þjóðskjalasafni Íslands.

 

Sem endranær eru athugasemdir og ábendingar vel þegnar.

 

Sjá einnig:

25. des. 2012 Tvö kirkjufok og búferlaflutningar Reykhólakirkju

25. nóv. 2012 Myndir af kirkjunum tveimur á Reykhólum

 

Athugasemdir

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir frá Reykhólum, laugardagur 07 september kl: 17:54

Steindu gluggarnir í kór kirkjunnar eru gjöf frá Hirti Hjálmarssyni, skólastjóra á Flateyri, bróður Steinunnar Hjálmarsdóttur, húsfreyju á Reykhólum, til minningar um eiginkonu sína Rögnu Sveinsdóttur og móður sína Kristínu Þorsteinsdóttur.

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, laugardagur 07 september kl: 18:02

Kærar þakkir fyrir þetta innlegg, ágæta Kristín.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31