Hátíðin í ár helguð fullveldi Íslands
Hin árvissa fullveldishátíð Reykhólaskóla, sem jafnan er haldin nálægt fullveldisdeginum, verður á föstudagskvöld, 27. nóvember, í íþróttasal skólans. Fullveldi Íslands er yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni, en ár hvert er hún helguð einhverju afmörkuðu viðfangsefni eða þema.
Húsið verður opnað kl. 19 og æskilegt að nemendur komi þá. Sýning hefst kl. 19.30 og skemmtuninni lýkur kl. 22.30. Hátíðin verður með kaffihúsabrag. Foreldrafélag Reykhólaskóla sér um kaffiveitingar. Allir eru velkomnir. Nemendur og starfsfólk hlakka til að sjá sem allra flesta á samkomunni.
Miðaverð:
Fullorðnir kr. 1.500
Börn og unglingar 6-16 ára kr. 500
Frítt fyrir börn 5 ára og yngri
Eins og áður sagði er hátíðin í ár helguð fullveldinu sem Íslendingum hlotnaðist 1. desember 1918. Það ár má teljast meðal hinna viðburðaríkustu í sögu lands og þjóðar. Það hófst með mestu frosthörkum sem sögur fara af hérlendis og frá þeim tíma hefur veturinn 1917-18 verið kallaður frostaveturinn mikli (leysti þar af hólmi veturinn 1880-81). Um haustið varð Kötlugos og spænska veikin barst til landsins og lagði fjölda fólks í gröfina. Af þeirri ástæðu voru hátíðahöld vegna fullveldisins 1. desember með daufara móti.
Varðandi frostaveturinn mikla má nefna, að þá lagði Breiðafjörð og var farið milli lands og eyja á ís, sjá mynd nr. 2 (timarit.is).
Sjá hér nánar ýmsan fróðleik um fullveldishátíðir Reykhólaskóla undanfarin sjö ár:
27.11.2014 Jólin eru yfirskrift fullveldishátíðarinnar
27.11.2013 Fólkið í húsinu á fullveldishátíð Reykhólaskóla
30.11.2012 Fullveldishátíðin helguð íslenskum þjóðsögum
01.12.2011 Allir velkomnir á fullveldishátíð Reykhólaskóla
12.12.2010 Fjölbreytt dagskrá fyrir alla á fullveldishátíð
04.12.2009 Allir velkomnir á fullveldishátíð Reykhólaskóla
27.11.2008 Allir velkomnir á fullveldishátíð Reykhólaskóla
Myndasyrpa frá fullveldishátíð Reykhólaskóla 2011