Tenglar

25. október 2014 | vefstjori@reykholar.is

Haustlaukasala til fjáröflunar hjá Lions

Nokkur sýnishorn af sortunum fjórtán.
Nokkur sýnishorn af sortunum fjórtán.
1 af 2

Vetrarstarf Reykhóladeildar Lionsklúbbs Búðardals hófst í vikunni og núna er fyrsta fjáröflunarverkefni starfsársins að fara í gang. Um er að ræða sölu á haustlaukum og úr fjórtán tegundum að velja. Laukarnir eru mjög misstórir eftir tegundum og þess vegna misjafnlega margir í hverjum poka. Laukar þessir munu helst þurfa að komast í jörð áður en frystir að einhverju ráði. Verðið á hverjum pakka er allt frá 600 krónum og upp í 1.500 krónur eins og sjá má á mynd nr. 2. Hver poki er einni krónu dýrari en í Blómavali, þaðan sem laukarnir eru fengnir með góðum afslætti.

 

Umsjón með þessu verkefni hefur einn Lionsfélaganna, Guðjón D. Gunnarsson á Reykhólum (öllu þekktari á heimaslóðum sem Dalli). Salan byrjar á því að Lionsfólk gengur í hús á Reykhólum og býður laukana til sölu. Jafnframt tekur Dalli við pöntunum í síma (434 7785, 866 9386), í tölvupósti eða á Facebook, auk þess sem velkomið er að banka upp á hjá honum að Hellisbraut 18. Fljótlega stendur síðan til, eftir því sem færð og veður leyfa, að fara um svæði Reykhóladeildarinnar og falbjóða lauka. Deildin spannar Reykhólahrepp vestur á Skálanes og Saurbæjarhrepp hinn gamla í Dalasýslu.

 

Pantanir má bæði sækja heim til Dalla eða fá laukana senda hvert á land sem er, hvort heldur væri norður á Strandir eða eitthvert annað. „Við hér á Reykhólum erum alltaf að fara á Strandir, að spila brids í hverri viku eða í Ríkið eða annarra erinda,“ segir hann.

 

Dalli er ekki með posa og litla skiptimynt. „Gott væri því að fólk hefði reiðufé meðferðis, en langæskilegast væri samt að millifæra,“ segir hann. Í því skyni hafa miðar með reikningsupplýsingum verið fjölfaldaðir til að láta fylgja sendingum eða við afhendingu.

 

Lionsfólk hefur á hverju ári margvísleg útispjót til fjáröflunar. Afraksturinn rennur óskiptur til einhverra valinna verkefna í þágu samfélagsins. Á meðal fastra viðburða til fjáröflunar hjá Reykhóladeildinni ár hvert má nefna skötuveisluna á Þorláksmessu og samkomuna þar sem saman fara saltkjöt og baunir og kynning á skáldi eða rithöfundi úr Reykhólahreppi eða Dalabyggð.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29