Tenglar

7. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Hefðum mátt standa okkur betur

Lið Breiðfirðingafélagsins: Urður María, Páll og Grétar Guðmundur. Myndir jr.
Lið Breiðfirðingafélagsins: Urður María, Páll og Grétar Guðmundur. Myndir jr.
1 af 5

Lið Breiðfirðingafélagsins lagði lið Barðstrendingafélagsins í sextán liða útsláttarkeppninni í Spurningakeppni átthagafélaga í kvöld með fjórtán stigum gegn sex. „Þetta var mjög fínt. Við erum öll frekar í yngri kantinum. Við höfum öll þrjú keppt í Gettu betur, þar af eitt okkar fyrir MR [innskot: Grétar Guðmundur] þannig að við höfum reynslu á þessu sviði. Það er mjög gaman að taka aftur þátt í svona keppni og þá ekki síst að keppa fyrir sína sveit“, sagði Urður María Sigurðardóttir í liði Breiðfirðingafélagsins að rimmunni lokinni. Móðir hennar, Þórhildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, er ein systkinanna mörgu frá Breiðalæk á Barðaströnd.

 

„Það er mjög skemmtilegt og gott framtak að halda svona keppni,“ sagði Valdimar Össurarson frá Láganúpi í Kollsvík, sem var í liði Barðstrendingafélagsins. „En ef maður ætti að tala um frammistöðu okkar liðs, þá hefðum við mátt standa okkur betur!“

 

Sigurlið Breiðfirðingafélagsins skipuðu Grétar Guðmundur Sæmundsson, Páll Guðmundsson og Urður María Sigurðardóttir. Lið Barðstrendingafélagsins skipuðu Gunnlaugur Júlíusson, Ólína Kristín Jónsdóttir og Valdimar Össurarson. Stafrófsröð í báðum tilvikum!

 

Gestir sem fylgdust með keppninni í kvöld voru á annað hundrað. Tilhögun var sú, að fyrst var látbragðsleikur með átta orðum, síðan fimmtán spurningar og loks vísbendingarspurning sem gat gefið þrjú stig.

 

Ef væntingar ganga eftir kemur sjónvarpsupptaka frá viðureign þessara liða hér á Reykhólavefinn eftir helgina.

 

Átta liða úrslit í Spurningakeppni átthagafélaga verða 21. mars og undanúrslit 11. apríl en úrslitakeppnin verður 24. apríl, síðasta vetrardag. Að henni lokinni verður gleði og gaman og dans fram á nótt. Allt fer þetta fram í Breiðfirðingabúð við Faxafen í Reykjavík.

 

Í átta liða úrslitunum 21. mars keppir lið Breiðfirðingafélagsins við lið Árnesingafélagsins sem í fyrri lotu fyrstu umferðar bar sigurorð af liði Önfirðingafélagsins.

 

Meðfylgjandi myndir frá keppninni í kvöld tók Jónas Ragnarsson ritstjóri í Reykjavík - hann er Siglfirðingur að uppruna og var þarna ekki síst að fylgjast með sínu fólki.

 

___________________________

Umsjónarmaður þessa vefjar getur eiginlega ekki stillt sig um að geta þess hér neðanmáls, að tvær af systrunum frá Breiðalæk á Barðaströnd voru á sínum tíma meðal nemenda hans í menntaskóla. Jafnframt mætti nefna, að í systkinahópnum frá Breiðalæk er fólk sem nánast öll þjóðin þekkir og metur mikils - enda þótt fæstir viti kannski um upprunann og tengslin.

 

Sjá einnig:

18.02.2013 Spurningakeppnin: Átthagafélög að vestan í meirihluta

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31