Tenglar

2. mars 2015 |

Hefur gaman af alls kyns fánýtum fróðleik

Kristján Gauti Karlsson á Kambi.
Kristján Gauti Karlsson á Kambi.
1 af 4

Kristján Gauti Karlsson á Kambi í Reykhólasveit byrjaði fyrir réttum mánuði sem blaðamaður á vikublaðinu Skessuhorni á Akranesi og fréttavef þess. Hann er þar í sextíu prósent starfi til vors, samhliða vinnu við lokaverkefni til BA-prófs, og verður síðan í fullu starfi á Skessuhorni í sumar.

 

„Já, liðinn mánuður hefur verið mjög skemmtilegur og áhugaverður,“ segir Kristján Gauti, í daglegu tali yfirleitt kallaður Gauti. „Reyndar er ég í nokkuð sérhæfðu verkefni núna í byrjun, ég sé um allt efni, allan texta, í ferðablaðinu fyrir Vesturland sem Skessuhorn gefur út á hverju vori. En líka hef ég skrifað nokkrar almennar fréttir.“

 

Lokaverkefni Gauta til BA-prófsins fjallar um orðmyndunaraðferðir í íslensku slangri. Orðið slangur er myndað eftir enska orðinu slang. Það merkir óvenjuleg orð eða orðalag sem kemur skyndilega til sögunnar, oft í ákveðnum hópum, ekki síst meðal ungmenna og ungs fólks, og hverfur síðan í mörgum tilvikum ámóta skyndilega, dettur úr tísku. Þar er því um dægurflugur að ræða. Dæmi um nýleg slangurorð eru smelludólgur, nammviskubit, Gnarrenburg og veiðigalli.

 

Stundum vinnur slangrið sér þó fastan sess og lifir áfram, líkt og „dægurlög“ sem eru vinsæl um tíma og gleymast svo flestum þó að sum lifi áfram. Dæmi um dægurlag sem lifir enn í dag (sumsé fyrrverandi dægurlag) er Litla flugan, sem Sigfús Halldórsson tónskáld samdi á Reykhólum fyrir hartnær 65 árum.

 

„Mér finnst þetta mjög skemmtilegt viðfangsefni,“ segir Kristján Gauti. „Oft fylgja slangrinu einhverjir orðaleikir, glens og grín.“ Lokaritgerðin er það eina sem Gauti á eftir að klára til BA-prófsins.

 

Aðspurður um helstu áhugamál nefnir Gauti tónlist og hljóðfæraleik, lagasmíðar og textasmíðar, íþróttir, kvikmyndir og íslenskt mál. „Ég grúska gjarnan í sagnfræði og hef gaman af alls kyns fánýtum fróðleik. Ég les greinar sem ég finn á netinu og glugga í bækur þegar mér dettur það í hug, bara það sem vekur áhuga hverju sinni.“ Í þessum efnum lýkur Gauti sérstöku lofsorði á Wikipedíu.

 

- Hafa einhver af lögunum þínum komið út?

 

„Nei, þau eru leikin nokkuð reglulega á tónleikum en ég hef ekki gefið neitt út eftir sjálfan mig.“

 

- Heldurðu að það komi ekki að því?

 

„Ég vona að það komi að því, ef ég nenni einhvern tímann að taka þetta upp og standa í því að gefa það út. Ætli það yrði þá ekki bara gefið út á internetinu, ég á alveg eins von á því.“

 

Reyndar hafa þrír söngtextar eftir Gauta verið gefnir út. Það var á plötu Heimis Klemenzsonar, Kalt, sem kom út í fyrra. Og vel að merkja, þá er hann einmitt farinn að leika á gítar með þeirri hljómsveit núna, eins og fram kemur hér neðst þar sem gerð er grein fyrir myndunum, en var ekki á þeim tíma sem platan var tekin upp.

 

Gauti var á fullu í íþróttum þegar hann var yngri, keppti með Umf. Aftureldingu hér og þar (Umf. Aftureldingu í Reykhólahreppi en ekki í Mosfellssveit eins og gefur að skilja), aðallega í frjálsum, meðal annars á meistaramótum og unglingalandsmótum. „Ég var nokkuð góður í frjálsum á aldrinum ellefu til fimmtán ára, einn af tíu bestu á landinu í þremur greinum, hástökki, kúluvarpi og spjótkasti.“

 

- Þá mætti ætla að þú hafir verið gott efni í tugþrautarmann ...

 

„Já, ég hefði getað orðið góður tugþrautarmaður ef ég hefði haldið áfram að æfa. Ég var ekki miklu síðri í langstökki og þrístökki en ekki mjög sterkur í langhlaupunum. Betri í greinum þar sem reynir á sprengikraftinn.“

 

Kristján Gauti var alla sína framhaldsskólatíð í Fjölbrautaskólanum á Akranesi og lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut árið 2009. Þar í skóla var hann samtíða Ásbirni Egilssyni, skólabróður sínum í Reykhólaskóla frá öndverðu, og jafnaldra þannig að ekki skakkar nema liðlega þremur mánuðum. Þeir verða báðir 25 ára á þessu ári. „Já mikil ósköp, við bjuggum saman alla fjölbrautina.“

 

Um þessar mundir stendur keppnin árvissa Gettu betur sem hæst. Á sínum tíma var Gauti í liði Fjölbrautaskólans á Akranesi í þeirri keppni. „Við vorum með fínt lið - en í fyrstu umferðinni mættum við MR-ingum,“ segir hann. Og skemmst er frá því að segja, að MR-ingar sigruðu í keppninni það árið eins og reyndar oftast.

 

Á árunum 2006-2009 vann Gauti í Þörungaverksmiðjunni á sumrin. Þar var hann við löndun hráefnis, þurrkun og pökkun á þangmjöli, útskipun og afgreiðslu gáma, viðhaldi og viðgerðum og öðru tilfallandi. Sumarið 2006 leysti hann af í sex vikur sem háseti á Karlsey, flutningaskipi verksmiðjunnar. Síðustu fimm sumur hefur Gauti unnið í Járnblendinu á Grundartanga sem ofngæslumaður við útsteypingu og hreinsun kísiljárns.

 

Varðandi myndirnar:

 

Á mynd nr. 2 leikur Kristján Gauti á bassa og syngur með pönkhljómsveit sem ber það ágæta heiti Pungsig. Af einhverjum ástæðum vildi hann reyndar helst hafa orðið syngur innan gæsalappa.

 

Mynd nr. 3 er tekin í Borgarneskirkju á burtfarartónleikum Heimis Klemenzsonar. Gauti lék þar á gítar með hljómsveit hans og hefur nú raunar alfarið tekið við stöðu gítarleikara sveitarinnar.

 

Mynd nr. 4 er tekin á síðustu árshátíð Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum, þar sem Gauti og Finnur Ágúst Ingimundarson (t.v.) voru veislustjórar. Þess má geta, að veturinn 2012-2013 var Gauti formaður Mímis og sat einnig í stjórn Veritas, hagsmunafélags nemenda á Hugvísindasviði.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31