Tenglar

23. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Hefur hellt niður yfir 50 þúsund lítrum af mjólk

Úr Morgunblaðinu í dag.
Úr Morgunblaðinu í dag.

„Mér finnst ég hafa verið beittur miklu óréttlæti,“ segir Daníel H. Jónsson, bóndi á Ingunnarstöðum í Geiradal í Reykhólahreppi, sem missti framleiðsluleyfi 12. nóvember og hefur í tæplega tvo og hálfan mánuð hellt niður mjólk, samtals yfir 50 þúsund lítrum. Þetta kemur fram í frásögn og viðtali Egils Ólafssonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag, en hann kom ásamt myndatökumanni í heimsókn til Daníels. Enn bíður Daníel eftir svari ráðuneytis hvort ákvörðun Matvælastofnunar um að svipta hann leyfi verði endurskoðuð.

 

Í umfjölluninni í Morgunblaðinu segir m.a.:

 

Þegar nýr héraðsdýralæknir kom til að skoða fjósið á Ingunnarstöðum í júní á síðasta ári gerði hann nokkrar athugasemdir við fjósið. Athugasemdirnar eru merktar sem „frávik“, en þær snerta þrif á mjaltabúnaði, mjólkurhús og handþvottaaðstöðu. Gerð er athugasemd við að pollur sé við vatnskar og að mjólkurhúsgólf sé gróft og erfitt sé að þrífa það. Jafnframt er vakin athygli á því að ekki sé búið að rannsaka gæði vatnsins, en það er hlutverk Heilbrigðiseftirlits að gera það.

 

Héraðsdýralæknir kom aftur í september til að kanna hvort gerðar hefðu verið úrbætur. Í skýrslu dýralæknis segir að búið sé að þrífa mjaltaþjón en talsvert ryk sé þó ofan á honum. Handþvottaaðstaða hafi verið bætt, en krani sé þó enn mjög skítugur og það vanti handþurrkur. Fram kemur að hvorki hafi verið gerðar úrbætur við vatnskarið né á mjólkurhúsgólfi. Alvarlegasta athugasemdin er þó að vatnið standist ekki gæðakröfur.

 

Daníel segir að venjulega þegar dýralæknir kom til að skoða fjósið hafi það tekið um tíu mínútur. Stundum hafi verið gerðar einhverjar smávægilegar athugasemdir sem hann hafi reynt að taka tillit til. Þegar nýi héraðsdýralæknirinn kom í júní sl. hafi hann verið um tvo klukkutíma að skoða fjósið. Daníel segist hafa verið í miðjum heyskap þegar athugasemdir bárust og talið að hann þyrfti ekki að rjúka úr heyskap til að gera úrbætur sem merktar hafi verið „frávik“.

 

Þegar hann hafi fengið þær upplýsingar að vatnið stæðist ekki gæðakröfur hafi hann strax brugðist við, en í ljós hafi komið að rör var farið í sundur við brunninn og það leiddi til þess að yfirborðsvatn komst í vatnsleiðsluna. Daníel segist hafa lagt áherslu á að þrífa mjaltaþjón og honum finnst langt gengið að gerð sé athugasemd við að ryk sé efst á honum.

 

Einnig var fjallað um mál Daníels á fréttavef Morgunblaðsins í gær og birt myndskeið þar sem Egill Ólafsson ræðir við hann - tengill á það hér.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31