Tenglar

24. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Hefur komið vestur í sauðburðinn á hverju ári

Helga Garðarsdóttir, hinn nýi hjúkrunarforstjóri Barmahlíðar.
Helga Garðarsdóttir, hinn nýi hjúkrunarforstjóri Barmahlíðar.

Helga Garðarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu hjúkrunarforstjóra Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum frá 1. nóvember. Þuríður Stefánsdóttir fráfarandi hjúkrunarforstjóri hefur gegnt starfinu frá ársbyrjun 2006 eða hátt í níu ár. Hún sagði því lausu miðað við 1. október en hefur verið fengin til að vinna einn mánuð í viðbót. Þetta var hvort tveggja lagt til á fundi stjórnar Barmahlíðar og síðan staðfest á aukafundi sveitarstjórnar í fyrrakvöld, en Barmahlíð er í eigu Reykhólahrepps.

 

Helga er búsett í Reykjavík ásamt Má Guðmundssyni eiginmanni sínum og fjórum börnum, 7 ára, 9 ára, 16 ára og 21 árs. Hún segir ekki fullráðið enn hvernig verður með búsetumál fjölskyldunnar þegar frá líður.

 

„Ég er með tvö börn í menntaskóla og þau verða áfram syðra og stunda sitt nám. Eins og staðan er í dag kem ég allavega með tvö yngri börnin en maðurinn minn verður áfram hér fyrir sunnan með eldri krökkunum og heldur áfram í sinni vinnu í Reykjavík, að minnsta kosti fyrst um sinn, svo sjáum við til. Hann er kerfisfræðingur og á þess vegna í rauninni möguleika á því að vinna hvar sem er.“

 

- En hvernig datt Helgu í hug að leita eftir vinnu hér fyrir vestan?

 

„Það er nú kannski að stórum hluta vegna þess að ég á góða vinkonu sem þarna býr og þannig hafði ég tengingu vestur. Ég hef verið að koma í sauðburð á Grund á hverju vori síðustu sjö árin. Við Ásta Sjöfn á Litlu-Grund erum æskuvinkonur héðan úr Reykjavík.“

 

Helga er fædd á Ísafirði og ólst þar upp til átta ára aldurs, þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur rétt fyrir 1980. Móðir hennar er Sesselja Ingólfsdóttir frá Bolungarvík en Garðar Gunnar Jónsson faðir hennar var frá Ísafirði.

 

Helga er bæði sjúkraliði og hjúkrunarfræðingur að mennt og á að baki fjölþætta og langa starfsreynslu í þeim geira, fyrst við umönnun á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og síðan sem sjúkraliði og hjúkrunarfræðingur á ýmsum deildum Landspítalans. Á sínum tíma lauk hún einnig háskólaprófi í rekstrarfræði og starfaði í þeirri grein hjá Landssímanum um nokkurt skeið fyrir mörgum árum. Helsta áhugamálið segir hún að sé hreyfing, svo sem spinning, hlaup og skíðaiðkun.

 

Myndin af Helgu sem hér fylgir er sjálfa (selfie) sem hún tók í snatri vegna þess að hún fann enga mynd af sér!

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31