Tenglar

12. desember 2011 |

Hefur verið í steypunni í þriðjung aldar

Guðlaugur Theódórsson.
Guðlaugur Theódórsson.
1 af 3

„Jú, þetta var nokkuð gott ár og það kom mér svolítið á óvart“, segir Guðlaugur Theódórsson á Reykhólum um steypuverkefnin á árinu sem nú er senn að kveðja. „Maður hélt að þetta væri að minnka því að árið í fyrra var það lélegasta frá því að ég byrjaði. Árin þar á undan voru svipuð og núna.“ Guðlaugur segir að á þessu ári hafi farið um 95 tonn af sementi í steypuna sem hann framleiddi. Sandinn og mölina í steypuna sækir hann í námur inni á Seljanesi og harpar eftir þörfum.

 

Guðlaugur hefur annast steypuþjónustu á Reykhólum í 34 ár eða allt frá 1977. „Þetta hefur nú gengið upp og ofan. Stundum hafa komið lægðir en verið sæmilegt á milli. Árin 1979 og 1982 var mest að gera í þessu og þá steypti ég yfir tvö þúsund rúmmetra hvort ár. Núna var þetta nokkuð á fjórða hundrað rúmmetra.“

 

Í skemmu við Suðurbraut neðan við Reykhólaþorp er Guðlaugur með bíla- og vélaverkstæði. Auk þess að vera með steypubíl er hann með vörubíl, traktorsgröfu og öflugan krana til ýmissa nota. Framan af var hann nær eingöngu í steypugerðinni.

 

- Hver voru helstu steypuverkefnin hjá þér á þessu ári?

 

„Þetta var nú mjög dreift og yfirleitt lítið á hverjum stað. Einna mest var það á Kinnarstöðum og síðan í Árbæ þar sem í báðum tilvikum voru byggðar vélageymslur. Svo var þetta bara hingað og þangað.“

 

- Hvað hefurðu farið lengst með steypu héðan frá Reykhólum?

 

„Sennilega vestur á Múlanes í Múlasveitinni gömlu fyrir nokkrum árum. Í sumar fór ég með steypu bæði vestur á Bæjarnes og út á Skarðsströnd og svo auðvitað á ýmsa staði þar á milli.“

 

- Nú stendur til hjá þér að flytja steypuaðstöðuna frá Mjólkurbúinu á Reykhólum og niður á gámasvæðið neðan við þorpið. Hefurðu verið alla þessa áratugi með aðstöðuna á þessum sama stað?

 

„Já, nokkurn veginn, þó að hún hafi færst aðeins til þarna á svæðinu.“

 

Guðlaugur Theódórsson er fæddur og uppalinn á Laugalandi við sunnanverðan Þorskafjörð. Hann fluttist þaðan og settist að á Reykhólum árið 1974 og hefur búið þar alla tíð síðan. Meðal áhugamála hans er kórastarf þar sem hann hefur verið þátttakandi um langt árabil, auk þess sem hann leikur á gítar og „gutlar“ á einhver fleiri hljóðfæri, eins og hann orðar það.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31