Heilbrigðisstofnanir á Norðvesturlandi sameinaðar
Heilbrigðisráðherra segir að samfélagsleg samstaða sé um sameiningu heilbrigðisstofnana á norðvestanverðu landinu. „Það er komin niðurstaða í þetta mál og það er ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanirnar á Akranesi og Borgarnesi, heilbrigðisstofnanirnar á Snæfellsnesi, í Dölum og þar með á Reykhólum, á Hólmavík og á Hvammstanga í eina", segir Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra í samtali við héraðsblaðið Skessuhorn. Alls eru þetta átta heilbrigðisstofnanir, sem verða sameinaðar undir einn hatt samkvæmt tillögum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fyrirrennara Ögmundar, frá því fyrr í vetur.
Ögmundur segir að full sátt sé um þessa sameiningu meðal forsvarsmanna heilbrigðisstofnana í landshlutanum og sveitarstjórnarmanna á stöðunum. Annars hefði þessi sameining ekki orðið að veruleika.