Tenglar

9. janúar 2016 |

Heilsufar lakara á landsbyggðinni

Ýmsar vísbendingar eru um að heilsa fólks sé lakari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og vísbendingar eru um mögulegar vangreiningar á sjúkdómum á meðgöngu hjá konum sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er dánartíðni lítils háttar hærri vegna hjarta- og æðasjúkdóma meðal kvenna utan höfuðborgarsvæðisins samanborið við konur innan þess.

 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í doktorsritgerð Sigríðar Haraldsdóttur í lýðheilsuvísindum, sem nefnist Heilsa í heimabyggð - Heilsufar og notkun heilbrigðisþjónustu eftir búsetusvæðum á Íslandi. Í ritgerðinni voru skoðaðar ýmsar upplýsingar um heilsufar eftir búsvæðum og þær bornar saman við framboð heilbrigðisþjónustu. Sigríður bendir á að til þess að vinna gegn svæðisbundnum mun á heilsu þurfi að styrkja heilsugæslu og ekki síður aðgengi að sérfræðiþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

 

Í Morgunblaðinu í dag fjallar Þórunn Kristjánsdóttir blaðamaður um ritgerðina og ræðir við Sigríði. Þar segir einnig meðal annars:

 

Menntun og heilsa haldast í hendur

 

Landsbyggðarfólk metur heilsu sína, andlega og líkamlega, verri en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni er staðan verri á ýmsum áhrifaþáttum heilsu, en þar mælist t.d. hærri tíðni offitu, sem bendir til minni hreyfingar og lakara mataræðis. Ekki er hægt að benda á einhvern einn orsakaþátt því margir þættir hafa áhrif á heilsu. „Menntun hefur mikil áhrif á heilsu og heilsuhegðun. Á höfuðborgarsvæðinu er um það bil helmingi hærra hlutfall af fólki með háskólagráðu en utan þess,“ segir Sigríður.

 

Vísbendingar eru um að sjúkdómar á meðgöngu séu vangreindir hjá mæðrum úti á landi. Minni líkur voru á að konur búsettar þar væru greindar með meðgöngusykursýki og háþrýsting. „Þetta eru þættir sem snúa að innihaldi heilbrigðisþjónustunnar. Það er mikilvægt að greina sjúkdóma mæðra á meðgöngu og bregðast við,“ segir Sigríður. Í ljósi þessa þarf að efla og styrkja mæðraverndina, að sögn Sigríðar, og bregðast við verri stöðu áhrifaþátta heilsu meðal kvenna utan höfuðborgarsvæðis.

 

Munur milli kynja kom á óvart

 

„Það kom mér mest á óvart að sjá mun á dánartíðni kvenna innan og utan höfuðborgarsvæðisins. Margt bendir til þess að heilsa kvenna sé lakari úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu,« segir Sigríður. Dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma er hærri á meðal kvenna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, munurinn er ekki mikill en samt sem áður marktækur.

 

Meira framboð er af sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og því er aðgengi að sérfræðiþjónustu verra á landsbyggðinni. „Það þarf að bregðast við þessu og finna leiðir til að veita fólki úti á landi betra aðgengi að sérfræðiþjónustu og styðja heilsugæsluna,“ segir Sigríður.

 

Hægt að efla lýðheilsu frekar

 

Sigríður er sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis. „Ástæðan fyrir því að ég fór í þessa vinnu, að skoða mun á heilsu og heilbrigðisþjónustu eftir svæðum, er sú að ég tel að hægt sé að nýta mun betur þær upplýsingar sem við söfnun í heilbrigðisþjónustunni til þess að efla lýðheilsu. Við þurfum að nálgast fólk þar sem það er búsett og miða heilbrigðisþjónustu og heilsueflingarstarf við staðbundnar þarfir íbúa. Við munum ekki breyta neinu varðandi svæðisbundinn mun á heilsu nema við lyftum honum fram og fylgjumst með,“ segir Sigríður.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31