Tenglar

22. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Heilsumiðuð þjónusta í tengslum við þarann

Morgunblaðið 22. sept. 2014.
Morgunblaðið 22. sept. 2014.

„Jákvæð viðbrögð viðskiptavina sem sumir koma aftur og aftur hvetja okkur áfram,“ segir Kristín Ingibjörg Tómasdóttir á Reykhólum, en hún stendur að Sjávarsmiðjunni með foreldrum sínum og fjölskyldu. Þar hefur verið boðið upp á þaraböð í bráðabirgðaaðstöðu frá árinu 2011 en nú er unnið að undirbúningi frekari uppbyggingar í fallegu umhverfi niður við sjóinn.

 

Reykhólahreppur hefur í samvinnu við eigendur Reykhólajarðarinnar unnið að skipulagningu svæðisins frá þorpinu og niður að sjó við Þörungaverksmiðjuna og með ströndinni. Allt er svæðið ætlað fyrir almenna útivist í sátt við umhverfið og náttúru svæðisins. Gert er ráð fyrir afmörkun 10 þúsund fermetra lóðar fyrir þjónustubyggingu sjávarbaða. Þar er ætlunin að byggja, auk þjónustubyggingar, smáhýsi til gistingar með laugum og pottum.

 

Þannig hefst hálfsíðu umfjöllun Helga Bjarnasonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag um Sjávarsmiðjuna á Reykhólum og fyrirhuguð sjávarböð, undir fyrirsögninni Ánægðir baðgestir hvetja okkur.

 

Þar segir einnig m.a.:

 

„Við höfum unnið lengi að því að koma hér upp heilsumiðaðri þjónustu í sambandi við þarann og allt sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Verði áform Sjávarsmiðjunnar að veruleika mun það setja okkur betur á kortið í ferðamálunum og auka atvinnu,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri.

 

Svanhildur Sigurðardóttir er frumkvöðull að þaraböðunum. Þaramjöli er blandað í sjó og telur fólk að böðin hafi góð áhrif á heilsuna. Fjölskyldan stendur að áformum um að byggja nýja aðstöðu fyrir böðin niður við sjóinn og bjóða jafnframt upp á gistingu. Kristín Ingibjörg, dóttir Svanhildar, segir að sú hvatning sem þau hafi fengið frá gestum hafi ýtt þeim í næstu skref. Nú séu arkitektar að hanna aðstöðuna innan þess ramma sem skipulagið setur.

 

Hún segir að ætlunin sé að byrja smátt, með 30 herbergi, og aðstöðu til að taka á móti fólki. Áhersla sé lögð á að fella mannvirkin inn í umhverfið. Böðin verði við sjóinn og unnt að nota ferskan þara ásamt þaramjölinu. Þarna sé fallegt útsýni út á Breiðafjörðinn og friður og ró.

 

Unnið er að áætlanagerð í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, sem stendur fyrir kynningu á náttúrulaugum um alla Vestfirði. Viktoría Rán Ólafsdóttir atvinnufulltrúi segir að hvergi séu fleiri heitar laugar en á Vestfjörðum og ferðamenn sæki í þær. Nefnir hún að endurbygging Hellulaugar sem er náttúruleg laug í flæðarmálinu við Flókalund hafi tekist vel og hún dragi að sér fjölda gesta.

 

Sjá einnig:

Staðarandi Reykhóla, greining og tillögur. Alta ehf. 2014.

 

Athugasemdir

Halla Valda, mnudagur 22 september kl: 14:17

Er svo stolt af frænkunum mínum þið eruð svo duglegar .

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31