28. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is
Heimamenn voru að störfum í veðuráhlaupinu
Björgunarsveitir um land allt höfðu í nógu að snúast í veðuráhlaupinu mikla um jólahátíðina. Menn úr Björgunarsveitinni Heimamönnum í Reykhólahreppi voru á Þorláksmessukvöld og fram á morgun aðfangadags til aðstoðar mönnum frá Orkubúi Vestfjarða, bæði við að leita að bilunum á raflínum og skutla mönnum til og frá. Síðan fóru þeir á aðfangadag vestur á Klettsháls til hjálpar fólki sem þar sat fast í tveimur bílum.
Bílarnir voru skildir eftir á Klettshálsi en Heimamenn fóru með fólkið á móti bílum frá björgunarsveitunum á Barðaströnd og Tálknafirði.