Heimsókn að Bæ á Bæjarnesi - hér má sjá þáttinn
Hún er frá Bæjarnesi við norðanverðan Breiðafjörð, hann frá Siglunesi við Siglufjörð. Bæði sáu æskuheimilin sín fara í eyði. Eftir að hafa kynnst sem pennavinir fluttu þau í Hafnarfjörð og stofnuðu verkstæði í bílskúrnum, sem nú er orðið 550 manna fyrirtæki og hið stærsta í sinni grein á landinu. Hjónin Kristjana G. Jóhannesdóttir og Hjalti Einarsson segja sögu sína í þættinum „Um land allt“ sem sýndur var á Stöð 2 í gær.
Þeir Kristján Már Unnarsson fréttamaður og Baldur Hrafnkell Jónsson kvikmyndatökumaður komu á liðnu sumri í heimsókn að Bæ á Bæjarnesi. Bær er við utanverðan Kollafjörð að vestanverðu, í Múlahreppi hinum gamla sem tilheyrir Reykhólahreppi hinum nýja, víðsfjarri þjóðveginum (sjá kortið á mynd nr. 4). Þetta var í sömu ferðinni þegar þeir komu í heimsókn í Kvígindisfjörð og hér var greint frá fyrir skömmu.
Þátturinn er rétt tæpur hálftími á lengd. Hann má sjá með því að smella hér.
Sjá einnig:
► Hér má sjá sjónvarpsþáttinn um Kvígindisfjörð