Heimsóknir á vef Reykhólahrepps um 250.000
Þetta verður að telja ótrúlega mikið, sé miðað við íbúafjölda sveitarfélagsins.
Fréttir sem settar hafa verið inn á sjálfan fréttavefinn frá upphafi eru 1.265 eða 8,7 á viku að jafnaði. Fundargerðir nefnda og stofnana Reykhólahrepps, sem settar hafa verið inn á vefinn, eru 293, þar af fjölmargar eldri en vefurinn sjálfur eða allt frá sumrinu 2003. Á undirvefinn Sjónarmið / Aðsent efni hafa verið settar inn 127 greinar og pistlar. Þá er margt ótalið, svo sem líklega kringum hundrað tilkynningar (kerfið geymir þær ekki nema ákveðinn tíma) og upplýsingar um stjórnkerfi og stofnanir Reykhólahrepps, myndasyrpur og sitthvað fleira.
Frá því að vefteljarinn var tengdur hefur vefur Reykhólahrepps verið heimsóttur í 102 löndum. Að Íslandi frátöldu hefur hann oftast verið heimsóttur í eftirtöldum tíu löndum, talið í röð eftir fjölda heimsókna: Bretland, Bandaríkin, Danmörk, Noregur, Þýskaland, Svíþjóð, Spánn, Kanada, Holland og Frakkland. Þetta sýnir ekki aðeins að vefurinn er heimafólki í Reykhólahreppi hugsanlega til nokkurs gagns og fróðleiks, heldur einnig að fólk með rætur í héraðinu og fleiri vilja fylgjast með því sem fram vindur. Þess verður glögglega vart í símtölum og tölvuskeytum og á annan hátt, að fjölmargir búsettir í öðrum landshlutum fylgjast reglulega með vefnum. Rétt er að taka fram í þessu sambandi, að ekki er hægt að sjá hverjir heimsækja vefinn eða úr hvaða tölvum.
Enn er í fullu gildi það sem ritað var þegar vefurinn var opnaður vorið 2008. Hér skal hnykkt á því:
Nauðsynlegt er að fólkið í Reykhólahreppi og aðrir veiti liðsinni og bendi á viðburði sem telja má fréttnæma eða frásagnarverða á þessum vettvangi. Rétt er að hafa í huga, að smáfréttir úr mannlífinu (nú eða þá dýralífinu) geta verið alveg eins merkilegar og stórfréttir - og iðulega skemmtilegri. Allar ábendingar eru vel þegnar og lítið mál er að senda stafrænar myndir netleiðis. Svo má líka hringja í síma 892 2240.
Jafnframt er nauðsynlegt að lesendur vefjarins séu vakandi yfir hvers konar villum og missögnum og vitleysum og láti vita af þeim, svo að laga megi og leiðrétta. Þar má líka nefna ábendingar um óvirka eða breytta tengla í tenglasafninu, enda verður ekki alltaf við öllu séð.
Og síðast en ekki síst: Verið nú fyrir alla muni dugleg að skrifa í athugasemdakerfið neðan við fréttirnar og láta skoðanir ykkar í ljós! En helst ekki undir dulnefni og alls ekki með neinu óviðurkvæmilegu skítkasti, eins og því miður sést svo oft í athugasemdum á ýmsum vefjum.
Netfang umsjónarmanns vefjar Reykhólahrepps er vefstjori@reykholar.is.
Ingibjörg Þór, fstudagur 04 febrar kl: 17:17
Frábært! Enda flottur og mjög virkur vefur, umsjónamanni til mikils sóma.