Hér er hægt að horfa á þáttinn á Stöð 2
Þátturinn úr Reykhólahreppi sem sýndur var í opinni dagskrá á Stöð 2 í gærkvöldi féll í góðan jarðveg hjá þeim sem umsjónarmaður þessa vefjar hefur talað við. Þeir Kristján Már Unnarsson fréttamaður og Baldur Hrafnkell Jónsson kvikmyndatökumaður komu í heimsókn og gerðu ýmsum hliðum á mannlífinu og atvinnulífinu skil og ræddu við hátt í þrjátíu manns. Ljóst var að hin stutta heimsókn þeirra félaga var vel skipulögð fyrirfram og efnið fjölbreytt í aðeins hálftíma löngum þætti. Það sem mesta athygli vekur líklega er hið ótrúlega háa hlutfall barna í sveitarfélaginu og hversu mikið af íbúum þess er ungt fólk.
Kristján Már er líka ánægður með heimsóknina og afrakstur hennar. Að vísu þakkar hann ekki sjálfum sér eða þeim félögum fyrir það heldur öllu fólkinu sem þeir hittu. Hann segir að móttökurnar hafi verið einstaklega góðar og fólkið sem þeir ræddu við áhugasamt og skemmtilegt.