Hér var einu sinni rekið ágætis lyfjaútibú ...
Þetta er bara hneisa, segir Björk Stefánsdóttir á Reykhólum á Facebook. Þar deilir hún þessari frétt um bókun sveitarstjórnar Reykhólahrepps, sem lýsir áhyggjum sínum vegna þess að Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ekki lengur með samning við hjúkrunarfræðing um störf í héraðinu.
Björk heldur áfram:
Ég hringdi í hjúkrunarfræðinginn í Barmahlíð, hélt að sjálfsögðu að hún væri með samning eins og fyrrverandi hjúkrunarfræðingar hér. Ebba Sif var svo lasin og ég hringdi í hjúkkuna og auðvitað kom hún strax, lítið barn veikt, hún hafði að sjálfsögðu ekki samvisku í að segja Nei, ég er ekki í vinnu fyrir HVE. En auðvitað fer ég ekki að hringja aftur. Við eigum bara að keyra í Búðardal til að fá einhverja þjónustu (75 km). Þetta er ekki boðlegt.
Síðan segir hún:
Svo fyrst ég er komin í ham að tala um heilbrigðiskerfið hér, þá verð ég að halda áfram. Hér var einu sinni rekið ágætis lyfjaútibú með öllu því helsta, en núna eftir að Lyfja tók við eru ekki einu sinni til stílar fyrir ungbörn. Torfi Sigurjónsson varð að keyra í Búðardal eitt kvöldið fyrir stuttu til að sækja stíla og pensillín fyrir barnið.
Er þetta í alvöru boðlegt? Núna er hávetur, ófærð og vond veður, það er bara eins gott að allir haldist hressir og þurfi ekki að leita sér aðstoðar. Ekki nema við getum veikst á mánudögum, því þá kemur læknir á heilsugæsluna. En ef við þurfum lyf verðum við að keyra eftir þeim eða bíða eftir póstinum.
Jæja, þá er þessum niðurdrepandi pistli lokið. Vonandi fáum við hjúkrunarfræðing til starfa hér.
Ýmsir leggja orð í belg við færslu Bjarkar. Þannig segir Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ meðal annars:
Af hverju ætti þetta að vera niðurdrepandi pistill? Alls ekki, þetta er bara blákaldur veruleiki. Smátt og smátt deyr öll þjónusta út á landsbyggðinni, enginn ber ábyrgð á neinu. Ykkur er nær að vilja búa þarna, skín út úr svörum þeirra sem ráða ferðinni í samfélaginu, komið bara í fjölmennið, þá fáið þið þá þjónustu sem þið þurfið.
► Björk Stefánsdóttir á Facebook
Björk Stefánsdóttir, laugardagur 20 desember kl: 00:54
Ég vil taka það fram að ég er að sjálfsögðu ekki að lasta læknisþjónustuna sem slíka, við erum mjög heppin að hafa gott aðgengi að lækni. Það er bara þessi grunnþjónusta sem er langt því frá að vera í lagi. Ég hugsa að nágrannabæir okkar væru t.d ekki ánægðir með sömu "þjónustu" og við erum með.