Tenglar

19. desember 2014 |

Hér var einu sinni rekið ágætis lyfjaútibú ...

Heilsugæslustöðin á Reykhólum.
Heilsugæslustöðin á Reykhólum.

Þetta er bara hneisa, segir Björk Stefánsdóttir á Reykhólum á Facebook. Þar deilir hún þessari frétt um bókun sveitarstjórnar Reykhólahrepps, sem lýsir áhyggjum sínum vegna þess að Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ekki lengur með samning við hjúkrunarfræðing um störf í héraðinu.

 

Björk heldur áfram:

 

Ég hringdi í hjúkrunarfræðinginn í Barmahlíð, hélt að sjálfsögðu að hún væri með samning eins og fyrrverandi hjúkrunarfræðingar hér. Ebba Sif var svo lasin og ég hringdi í hjúkkuna og auðvitað kom hún strax, lítið barn veikt, hún hafði að sjálfsögðu ekki samvisku í að segja Nei, ég er ekki í vinnu fyrir HVE. En auðvitað fer ég ekki að hringja aftur. Við eigum bara að keyra í Búðardal til að fá einhverja þjónustu (75 km). Þetta er ekki boðlegt.

 

Síðan segir hún:

 

Svo fyrst ég er komin í ham að tala um heilbrigðiskerfið hér, þá verð ég að halda áfram. Hér var einu sinni rekið ágætis lyfjaútibú með öllu því helsta, en núna eftir að Lyfja tók við eru ekki einu sinni til stílar fyrir ungbörn. Torfi Sigurjónsson varð að keyra í Búðardal eitt kvöldið fyrir stuttu til að sækja stíla og pensillín fyrir barnið.

 

Er þetta í alvöru boðlegt? Núna er hávetur, ófærð og vond veður, það er bara eins gott að allir haldist hressir og þurfi ekki að leita sér aðstoðar. Ekki nema við getum veikst á mánudögum, því þá kemur læknir á heilsugæsluna. En ef við þurfum lyf verðum við að keyra eftir þeim eða bíða eftir póstinum.

 

Jæja, þá er þessum niðurdrepandi pistli lokið. Vonandi fáum við hjúkrunarfræðing til starfa hér.

 

Ýmsir leggja orð í belg við færslu Bjarkar. Þannig segir Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ meðal annars:

 

Af hverju ætti þetta að vera niðurdrepandi pistill? Alls ekki, þetta er bara blákaldur veruleiki. Smátt og smátt deyr öll þjónusta út á landsbyggðinni, enginn ber ábyrgð á neinu. Ykkur er nær að vilja búa þarna, skín út úr svörum þeirra sem ráða ferðinni í samfélaginu, komið bara í fjölmennið, þá fáið þið þá þjónustu sem þið þurfið.

 

Björk Stefánsdóttir á Facebook

 

Athugasemdir

Björk Stefánsdóttir, laugardagur 20 desember kl: 00:54

Ég vil taka það fram að ég er að sjálfsögðu ekki að lasta læknisþjónustuna sem slíka, við erum mjög heppin að hafa gott aðgengi að lækni. Það er bara þessi grunnþjónusta sem er langt því frá að vera í lagi. Ég hugsa að nágrannabæir okkar væru t.d ekki ánægðir með sömu "þjónustu" og við erum með.

Þrymur Sveinsson, sunnudagur 21 desember kl: 12:32

Sveitungar mínir að minni fjölskyldu meðtaldri meðan við áttum fasta búsetu vestra vorum stálheppin að vera yfirleitt heilsugóð og þurfa sjaldan á læknisþjónustu að halda. Mikið vetrarríki hamlaði samgöngum um Svínadal og Gilsfjörð fyrir lagningu brúarinnar. Það var okkur sannarlega til láns að eiga Ingjbjörgu Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðing í Garpsdal þegar mikið lá við. Alltaf var hún til taks, ráðagóð og vann fumlaust líknandiverk oft við erfiðar aðstæður. Ég veit ekki hvort við hefðum verið eins heppin hefði ekki verið lyfjabúr á Reykhólum og hjúkrunarfræðingur staðsett á svæðinu norðan Gilsfjarðar. Mér finnst sannarlega vert að geta þess sem vel ver gert og þeirrar þjónustu sem er hreint ekki sjálfgefin.

Steinunn Ó. Rasmus, sunnudagur 21 desember kl: 12:36

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Síðast liðin 25 ár hef ég vegna alvarlegra og langvinnra veikinda dóttur minnar þurft að ná í lækni og/eða hjúkrunarfræðing á öllum tímum sólarhringsins. Það er ekki síst vegna þess hve aðgengi að góðum læknum hér hefur verið og er gott að það kom aldrei til greina að þurfa að flytja þangað sem aðgengi að læknum "á að vera betra". Undantekningarlaust náði ég ætíð símasambandi við lækni eða hjúkrunarfræðing og ef þeir gátu ekki leyst málin höfðu þeir samband við sérfræðing hennar fyrir sunnan og málin leyst hér heima í samráði við þá og okkur. Endurteknar sýkingar í mörg ár og ég þurfti EKKI að aka í misjöfnum veðrum í Búðardal, lyfin voru einfaldlega til á Heilsugæslunni hér á Reykhólum. Á þessum árum var hjúkrunarfræðingurinn búsettur í Garpsdal en það hamlaði ekki för. Síðustu árin hefur hjúkrunarfræðingurinn í Barmahlíð sinnt okkur, en nú er ekki samið við viðkomandi. Það vita allir að hjúkrunarfræðingar neita ekki að koma ef læknir kemst ekki hingað og oft er hægt að leysa mál með samtölum læknis og hjúkrunarfræðings. Ég skora á aðila að semja við hjúkrunarfræðing sem staðsettur er í Barmahlíð, einng skora ég á viðkomandi aðila að hafa lágmark algengra lyfja til á Heilsugæslunni á Reykhólum.
Svo það fari ekki á milli mála þá er ég EKKI að lasta læknana sem hér eru og hafa verið.

Steinunn Ó. Rasmus, sunnudagur 21 desember kl: 12:51

Mig langar að bæta hér við einni góðri sannri sögu frá þessum tíma. Dóttir mín þurfti reglulega að fá blóðaukandi lyf í sprautuformi. Lyfin voru henni mjög nauðsynleg. Alltaf var passað upp á að þau væru til á Heilsugæslunni á Reykhólum, einng var Ingibjörg með öryggis skammt heima hjá sér og við vorum líka með þessi lyf heima. Við vorum að fara suður í enn eina læknaferðina og það var kominn tími á sprautu, mátti helst ekki bíða einn dag, varð að vera reglulegt. Það var leiðinda veður en sam þokkalega fært. Við komum við í Garpsdal, þar var ansi dimmt, skafrenningur og bara leiðinda veður. Dóttir mín átti ekki allt of gott með gang á þessum tíma, en það var ekki vandamál hjá Ingibjörgu okkar. Málið var einfalt, hún sagðist eiga miklu auðveldara með að fara út í bíl til hennar en dóttir okkar af krönglast inn í hús til hennar. Hún fór því einfaldlega út til hennar og hún fékk sína sprautu í handlegginn úti í bíl. Enginn vandræðagangur þar frekar en fyrri daginn.

Sigurbjörn Sveinsson, sunnudagur 21 desember kl: 20:51

Það er alveg óviðunandi ef ekki er til lágmarksforði af handkaupslyfjum á Reykhólum og nauðsynleg lyfseðilskyld lyf til að nota í bráðatilvikum.
Sé starfandi hjúkrunarfræðingur á Reykhólum sem engar skyldur hefur gagnvart heilsugæslunni mun það leiða til óhagræðis fyrir íbúana og einnig fyrir lækninn í Búðardal að ekki sé minnst á misnotkunina þegar í nauðyrnar rekur og ekki hægt að leita annað. Það er mér óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið reynt til þrautar að leysa þetta mál með öðrum hætti.
Sögurnar af Ingibjörgu eru margar og því ótrúlegri sem þær eru því líklegri eru þær að vera sannar. Ingibjörg er/var hugaður hjúkrunarfræðingur og mikill ferðamaður sem komst yfirleitt allt sem hún ætlaði sér hvort sem hún var á Bens eða jeppa. Og aldrei var Hafliði langt undan úrræðagóður og rólegur með sína hjálpandi hönd.

Sigurbjörn Sveinsson, sunnudagur 21 desember kl: 21:24

Sigurgeir heitinn Tómasson á Mávavatni hafði jafnan á orði að ég væri ekki bjargarlaus, þegar Ingibjörg var með í för. Annars kallaði hann hana aldrei neitt annað en Ingeborg.
Það ætti auðvitað að vera búið að krossa Ingibjörgu fyrir löngu. Austur-Barðstrendingar ættu að sjá til þess.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30