Tenglar

12. ágúst 2008 |

Heyvagninn á Miðjanesi í nýju hlutverki

Brúðhjónin Hrefna Hugosdóttir og Stefán Magnússon notuðu fremur óvenjulegan farkost þegar þau komu til vígslunnar í Reykhólakirkju síðdegis á föstudag. Það var gamli heyvagninn á Miðjanesi sem þar hefur verið notaður í meira en hálfa öld. Faðir brúðarinnar ók gömlum og merkum traktor og dró vagninn en faðir brúðgumans fylgdi á eftir á annarri merkilegri dráttarvél. Ekki þurfti yfirbreiðslu á farminn á heyvagninum enda veðrið eins blítt og framast verður á kosið. Um kvöldið var dansleikur í íþróttahúsinu á Reykhólum og dansað alla nóttina og fram á næsta morgun. Þess má geta, að sr. Sjöfn Þór á Reykhólum, sem annaðist hjónavígsluna, var á sínum tíma skólasystir Stefáns á Laugarvatni.

 

Ekki er hægt að segja að hér hafi verið hlaupið í hnapphelduna í neinni skyndingu því að Hrefna og Stefán hafa búið saman í tólf ár og eiga tvö börn, Júlíus Óla sem er tíu ára og Ragnheiði Maríu sem er þriggja ára. Foreldrar brúðarinnar eru María Játvarðardóttir frá Miðjanesi (næsta kunnug heyvagninum hér í eina tíð) og Hugo Rasmus frá Reykhólum. Foreldrar brúðgumans eru Ragnheiður Hrefna Jónsdóttir og Magnús Stefánsson, sem lengstum voru búsett í Hveragerði en eiga nú heima í Danmörku.

 

Athöfnin í kirkjunni einkenndist ekki síst af tónlistarflutningi. Regína Magnúsdóttir söng einsöng og Harasystur, þær Rakel og Hildur, sungu ásamt Regínu, en þær eru allar systur brúðgumans. Gunnar Ólafsson úr Skítamóral tók lagið og einnig Helvar, eins og Heiða og Elvar kalla sig - hún er best þekkt sem Heiða í Unun.

 

Brúðkaupshátíðinni lauk í íþróttahúsinu á Reykhólum með tvö hundruð manna dansleik sem stóð fram til klukkan sex um morguninn. Fyrir dansinum lék Bjórbandið ásamt Einari Sigurðssyni, en Einar var einnig orgelleikari við athöfnina í kirkjunni. Auk þess komu fram pönkhljómsveitirnar Dys og Rakað klof.

 

Traktorinn sem Hugo ók og dró heyvagninn er Farmall D-320 sem kom nýr að Grund í Reykhólasveit árið 1959. Hugo ók þessum sama traktor þegar hann var tólf ára gamall í sveit hjá frændfólki sínu á Grund fyrir (miklu) meira en fjórum áratugum. Traktorinn sem Magnús ók á eftir vagninum er Farmall Cub árgerð 1952, sem á sínum tíma kom nýr að Gautsdal, fór þaðan árið 1959 að Hofsstöðum og loks 1994 að Grund. Báðar eru þessar dráttarvélar hluti af traktorasafninu á Grund.

 

Til er fimmtíu ára gömul mynd af heyvagninum þar sem heimilisfólkið á Miðjanesi er í heyskap. Núna í tilefni af hinu nýja hlutverki vagnsins var hún stækkuð og fest á hann ásamt skýringum (myndir nr. 4 og 5). Á síðustu myndinni sér heim að Miðjanesi, sem er á miðju Reykjanesi við Breiðafjörð, nokkra kílómetra utan við Reykhóla. Samkvæmt fornum ritum íslenskum er Miðjanes landnámsjörð og bjó þar Úlfur skjálgi (skjálgur: rangeygður) fyrstur manna.

 

Myndirnar frá athöfninni sem hér fylgja tóku Erling Ó. Aðalsteinsson og Tómas Rasmus.

 

Athugasemdir

Bergsveinn G Reynisson, rijudagur 12 gst kl: 20:21

Glæsilegar myndir af glæsilegu fólki og farartækjum.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30