Tenglar

7. júní 2016 |

Hitt og þetta í tilefni aðsteðjandi forsetakosninga

Óskar Arinbjörnsson (afi Jóns Gnarr) ávarpar forseta í tjaldinu í Djúpadal.
Óskar Arinbjörnsson (afi Jóns Gnarr) ávarpar forseta í tjaldinu í Djúpadal.
1 af 3

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson fór ásamt Guðrúnu Katrínu eiginkonu sinni og fylgdarliði í sína fyrstu opinberu heimsókn út á land í upphafi forsetatíðar sinnar fyrir tveimur áratugum lá leiðin vestur. Fyrsti áningarstaðurinn var Bjarkalundur í Reykhólasveit. Daginn eftir var haldið áfram sem leið lá, og ummæli forsetans um vondu vegina í Austur-Barðastrandarsýslu urðu ýmsum hneykslunarhella; forsetinn ætti ekki að tjá sig um slíkt. Hann ætti bara að fara fögrum orðum um menningararfinn og landgræðslu og Jón Sigurðsson og góða veðrið og þess háttar.

 

Þessi upprifjun felur ekki í sér nokkurn einasta dóm um það hvað forsetinn ætti að ræða og hvað ekki. Hún er aðeins inngangur að annarri upprifjun; um fyrstu opinberu ferð fyrsta forseta Íslands út á land. Í þeirri ferð var líka haldið vestur á bóginn og fyrsti áningarstaðurinn var í Króksfjarðarnesi í Geiradalshreppi, sem núna tilheyrir Reykhólahreppi hinum nýja eins og öll gömlu sveitarfélögin fimm í Austur-Barðastrandarsýslu.

 

Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, ákvað að leggja leið sína á ættarslóðirnar í Gufudalssveit í sinni fyrstu opinberu heimsókn út á land. Frá henni er meðal annars greint í ritinu Þar minnast fjöll og firðir – Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum, og þar er að finna myndina af kaffisamsæti í tjaldi í Djúpadal sem hér fylgir. Einnig fylgir hér mynd af frétt sem birtist í Morgunblaðinu varðandi þá ferð.

 

Björn Jónsson, faðir Sveins Björnssonar, var bændasonur úr Djúpadal við Djúpafjörð í Gufudalssveit. Þegar hann kom heim frá námi í Danmörku ungur maður stofnaði hann blaðið Ísafold og litlu síðar Ísafoldarprentsmiðju. Björn var ritstjóri Ísafoldar í hartnær þriðjung aldar og skrifaði blaðið að mestu sjálfur. Hann var taldist sérlega góður íslenskumaður. Auk ritstjórnarinnar var hann afkastamikill bókmenntaþýðandi.

 

Þegar Björn Jónsson varð Íslandsráðherra árið 1909, næstur á eftir Hannesi Hafstein, tók Ólafur sonur hans við ritstjórn Ísafoldar, en árið 1913 stofnaði Ólafur ásamt Vilhjálmi Finsen Morgunblaðið. Ísafold var síðan eins konar hliðarrit Morgunblaðsins allt fram á seinni hluta aldarinnar.

 

Starfandi er sjóður sem ber heitið Minningarsjóður Björns Jónssonar – Móðurmálssjóðurinn, stofnaður árið 1943 þegar Sveinn sonur Björns var ríkisstjóri (undanfari forsetaembættisins). Tilgangur sjóðsins er að verðlauna fólk sem vinnur á fjölmiðlum og hefur að dómi sjóðsstjórnar ritað svo góðan stíl og vandað íslenskt mál, að sérstakrar viðurkenningar sé vert. Verðlaun eru ekki veitt á hverju ári og ekki með reglubundnu millibili. Síðast voru veitt verðlaun úr sjóðnum fyrir þremur árum.

 

Víkjum aftur að Ólafi Ragnari Grímssyni og tengslum hingað vestur. Afi hans, Ólafur Ragnar Hjartarson, sem tók upp ættarnafnið Hjartar, fæddist á Kambi í Reykhólasveit, þar sem foreldrar hans bjuggu um tíma áður en þau fluttust til Þingeyrar. Hjörtur Bjarnason, faðir Ólafs Ragnars Hjartar, var frá Hamarlandi í Reykhólasveit.

 

Sjá einnig:

Forseti, borgarstjóri, biskup – og Sigmundur Davíð (Reykhólavefurinn, maí 2013)

 

Og annað dálítið skylt:

Ættmóðirin Sesselja Jónsdóttir úr Svefneyjum (Reykhólavefurinn, janúar 2013)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31