Tenglar

28. maí 2015 |

Hjóla illræmdasta þjóðveg landsins og safna áheitum

Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. Að vísu sést brattinn ekki vel.
Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. Að vísu sést brattinn ekki vel.
1 af 2

Krakkarnir í 6.-10. bekk Reykhólaskóla ætla núna á laugardaginn að hjóla Vestfjarðaveg 60 um sveitarfélagið sitt endimarka á milli, og jafnframt sýslumarka á milli, því að Reykhólahreppur er eina sveitarfélagið í Austur-Barðastrandarsýslu. Lagt verður af stað á brúnni yfir Kjálkafjörð (skammt austan við Flókalund) en endamarkið er á þveruninni yfir Gilsfjörð. Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar að safna áheitum vegna hefðbundinnar Danmerkurferðar, sem krakkarnir sem núna eru í 6.-8. bekk fara þegar þau verða í 8.-10. bekk. Hins vegar að vekja athygli á ástandi vegamála í Reykhólahreppi og þá einkum ófremdarástandinu fornfræga í Gufudalssveit.

 

Vegalengdin sem krakkarnir hjóla milli Vestur-Barðastrandarsýslu í vestri og Dalasýslu í austri er um 120 kílómetrar, þar af nokkrir tugir kílómetra á óbundnu slitlagi. Erfiðustu kaflarnir verða yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls í Gufudalssveit, þar sem vegurinn er snarbrattur með mjög kröppum beygjum og lítið annað en flughál drulla í vætutíð á sumrin.

 

Ungmennin ætla að hjóla tvö og tvö saman fimm kílómetra í einu. Þau vonast eftir frjálsum framlögum, sem munu renna óskipt til Danmerkurferðarinnar. Leggja má inn eða millifæra á reikning Nemendafélags Reykhólaskóla:

 

0153-26-010152

kt. 600214-0630

 

Fyrir þá sem vildu kannski leggja fram tíkall á hvern kílómetra yrðu það 1.200 krónur, tuttugu krónur á kílómetra yrðu 2.400 krónur, þrjátíu krónur á kílómetra yrðu 3.600 krónur, fjörutíu krónur á kílómetra yrðu 4.800 krónur ...

 

Hjólakrakkana langar að bjóða öllum þeim sem vilja að hjóla með sér síðasta spölinn, eða frá vegamótunum upp á Þröskulda að Gilsfjarðarbrú. „Gaman væri ef ungir sem aldnir kæmu og hjóluðu með okkur þennan síðasta spotta.“

 

Áætlaður tími þar við vegamótin er um klukkan sjö um kvöldið, en það getur ekki verið nákvæmt, gæti alveg verið plús mínus klukkutími. Jóhanna Ösp Einarsdóttir í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal, æskulýðs- og tómstundafulltrúi Reykhólahrepps, segist hugsanlega geta sent boð á Facebook eða komið þeim hér á Reykhólavefinn, þegar krakkarnir eru hjá Bjarkalundi. Þá ætti að vera um klukkutími eftir.

 

Hún leggur í þessu efni sérstaka áherslu á eitt: „Börn verða þá að sjálfsögðu að vera í fylgd með fullorðnum og með hjálm ef þau ætla að koma og hjóla með okkur síðasta spölinn. Og ekki væri verra að þau séu í fötum í björtum litum svo þau sjáist vel.“

 

Svolítið varðandi erfiðustu hluta leiðarinnar:

Fimmta bílveltan hjá sama flutningafyrirtækinu

Óþarfi að ljúga upp á Ódrjúgsháls

Flutningabíll komst ekki upp Ódrjúgsháls (vegna drullu)

 

Athugasemdir

Jón Hjaltalin Magnússon, fimmtudagur 28 ma kl: 21:56

Góða ferð krakkar!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31