Tenglar

20. júlí 2012 |

Hlakkar til að koma á Reykhóladaga

Felix Bergsson.
Felix Bergsson.

Felix Bergsson verður sérstakur gestur á byggðarhátíðinni Reykhóladögum eftir eina viku (26.-29. júlí). Hann mun stjórna pylsupartíi í Kvenfélagsgarðinum á Reykhólum á laugardag og síðan verður hann veislustjóri á mjög fjölbreyttri kvöldskemmtun í íþróttahúsinu þá um kvöldið. „Vonandi eigum við bara eftir að hafa það skemmtilegt saman!“ segir Felix þegar hann er spurður við hverju megi búast af honum á hátíðinni.

 

„Ég hlakka til að hitta ykkur öll, bæði börn sem fullorðna. Ég ætla að syngja nokkur lög, bæði nýju lögin mín við ljóðin hans Páls Ólafssonar og einnig aðrar dægurflugur. Svo lumar maður kannski á nokkrum gamansögum og reynir að leiða veisluna áfram þannig að öllum líði vel. Það er stóra málið: Að fólki líði vel og geti skemmt sér með vinum og nágrönnum.“

 

Felix á ekki nein persónuleg tengsl við Reykhóla eða héraðið. „Nei, ekki er hægt að segja að ég eigi bein tengsl við Reykhóla. Móðir mín er ættuð úr Djúpinu og við fjölskyldan ferðuðumst oft um Vestfirðina en Reykhólar voru aldrei neinn sérstakur áfangastaður. Ég man bara að mér fannst fallegt að fara um héraðið. Svo er Sigurþóra systir mín gift manni sem heitir Rúnar Unnþórsson og hann á tengsl á Reykhóla og dvaldi þar í sveit sem barn. Það var gaman að heyra sögur úr sveitinni þegar þau giftu sig fyrir tveimur árum.“

 

Fyrir nokkrum árum kom Felix á Reykhóla ásamt Gunna Helga snemma vors, hann minnir að það hafi verið á sumardaginn fyrsta. „Það var mjög skemmtileg reynsla og einstaklega fallegt að koma til ykkar að vorlagi. Mér hefur alltaf þótt gríðarlega gaman að koma á sunnanverða Vestfirði, og Breiðafjörðurinn er auðvitað einstök náttúruperla,“ segir Felix, og bætir við: „Ég hlakka mikið til að koma á Reykhóladaga og njóta sumarsins með ykkur!“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31