Tenglar

22. febrúar 2015 |

Hlaut styrk til rannsókna á virkjun Múlaár í Gilsfirði

Ásbjörn Egilsson verkfræðingur.
Ásbjörn Egilsson verkfræðingur.
1 af 6

Ásbjörn Egilsson á Mávavatni á Reykhólum hefur fengið veglegan námsstyrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar fyrir góðan árangur í meistaranámi á orkusviði, en í lokaverkefni sínu í byggingarverkfræði er hann að gera frumathugun á virkjun Múlaár í Gilsfirði. Þar mun hann finna hagkvæmustu útfærslu virkjunar, skoða arðsemi hennar og meta helstu umhverfisáhrif. Auk þess mun hann skoða hvaða möguleikar eru til þess að tengja virkjunina við raforkudreifikerfið og hvaða áhrif hún hefði á dreifikerfið í Reykhólahreppi og á Vestfjörðum. Virkjun Múlaár var fyrst athuguð kringum 1950 og til eru rennslismælingar frá árunum 1954-1979.

 

Ásbjörn er 24 ára, sonur Egils Sigurgeirssonar og Áslaugar Bertu Guttormsdóttur á Mávavatni. Hann er stúdent af náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 2009 og fékk þar viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi. Hann var síðan eitt ár í skiptinámi við Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet (NTNU) í Þrándheimi í Noregi með megináherslu á vatnsafl. Haustið 2010 hóf hann nám í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands og lauk B.Sc.-prófi vorið 2013. Núna er Ásbjörn á öðru ári meistaranáms í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands (fyrra árið var námið við NTNU) og lýkur M.Sc.-prófi í vor.

 

Á árunum 2007-2012 vann Ásbjörn öll sumur við þangslátt á heimaslóð en sumarið 2013 vann hann hjá Ístaki við Búðarhálsvirkjun. Þar sá hann um vinnuteikningar, magntöku, afkastaútreikninga, gerð dagsskýrslna, úttektir á steypuvinnu og eftirlit og úttektir við reisingu háspennumastra. Þá annaðist hann í afleysingum gæðastjórnun og öryggismál.

 

Síðasta sumar starfaði Ásbjörn á orkusviði hjá norska ráðgjafafyrirtækinu Multiconsult og vann þar að frumathugun og frumhönnun á lítilli vatnsaflsvirkjun í Sambíu í suðurhluta Afríku. Verkefnið var unnið af fjórum nemum, vélaverkfræðingi, rafmagnsverkfræðingi og tveimur byggingarverkfræðingum undir handleiðslu yfirmanns og reyndari starfsmanna.

 

Ásbirni var falið að vera hópstjóri í verkefninu og annaðist hann skipulagningu þess, samskipti við verkkaupa og áætlanagerð. Verkefnið skiptist í þrjá hluta þar sem fyrst fór fram gagnaöflun og undirbúningur, þá var farið á verkstað og unnið með verkkaupa að hugmyndum og loks fóru fram útreikningar og skýrslugerð. Meðal annars sá Ásbjörn um úttektir á jarðfræði svæðisins, útreikninga á miðlun og rennsli, frumhönnun og bestun mannvirkja og um kostnaðar- og arðsemisútreikninga, auk þess að aðstoða við mat á umhverfisáhrifum.

 

Aðspurður um helstu áhugamál segir Ásbjörn að það séu fjallgöngur, snjóbretti, almenn útivist, íþróttir og ferðamennska.

 

Að þessu sinni voru veittir styrkir úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar í áttunda sinn og fór úthlutunin fram við hátíðlega athöfn á Hótel Natura þann 11. febrúar. Úthlutað var tæpum 60 milljónum króna til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála, annars vegar til nemenda í meistaranámi og doktorsnámi og hins vegar til rannsóknarverkefna. Sjö styrkir voru veittir til doktorsnema og níu til meistaranema, fimm styrkir til orkumála og ellefu til rannsókna á náttúru og umhverfi.

 

Um Orkurannsóknasjóð segir á vef Landsvirkjunar:

  • Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Sjóðurinn miðar að því að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri, og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samræmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.
  • Stjórnarformaður sjóðsins er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrum háskólarektor, en stjórn Orkurannsóknasjóðs skipa fjórir fulltrúar háskólasamfélagsins og tveir fulltrúar Landsvirkjunar. Úthlutað er úr sjóðnum árlega, en frá stofnun hans árið 2008 hefur sjóðurinn veitt styrki að heildarupphæð 438 milljónum króna.

 

Vefur Landsvirkjunar

 

Sex myndir fylgja þessari frétt.

 

Athugasemdir

Björk Stefánsdóttir, mnudagur 23 febrar kl: 01:25

Frábært, innilegar hamingjuóskir Ásbjörn

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31