15. nóvember 2016 | Umsjón
Hleðslustöðin í gagnið á nýja árinu
Ekki hefur verið ákveðið hvar hleðslustöðinni fyrir rafbíla verður komið fyrir, en það verður a.m.k. á einhverju húsi á Reykhólum í eigu sveitarfélagsins, væntanlega í byrjun nýs árs. Á myndinni er Friðrik Valdimar Árnason, orkuráðgjafi hjá Orkusölunni, að afhenda Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur sveitarstjóra búnaðinn.
Reykhólahreppur þakkar framtakið hjá Orkusölunni. Unnið hafði verið að því hjá sveitarfélaginu með aðstoð Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða að komið yrði upp hleðslustöð í þéttbýlinu. Sjónarmiðið var að stuðla almennt að þeim umhverfisvæna kosti að fólk geti ferðast um landið á rafknúnum bifreiðum og jafnframt að stuðla að því sérstaklega að ferðafólk á rafbílum geti áð á Reykhólum og sett bílinn í hleðslu.