„Hlutskipti Vestfirðinga er því miður allra verst“
„Í síðasta pistli var dregið fram að fasteignamat á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum fyrir 2012 væri aðeins um 1/3 af fasteignamati í Reykjavík. Það er einnig sama hlutfall af byggingarkostnaði þar sem fasteignamatið á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir er nokkurn veginn jafnt byggingarkostnaði eftir að hafa verið umtalsvert hærra á árunum fyrir bankahrun. Athyglisvert er að árið 1990 var matið tvöfalt hærra á Vestfjörðum en nú er eða um 2/3 hlutar af fasteignamatinu í Reykjavík. Á fáum árum, frá 1998 til 2004, hrundi fasteignaverðið um helming. Athuga ber að þetta er meðaltalið fyrir Vestfirði, verðhrunið varð örugglega minna á Ísafirði en meira annars staðar í fjórðungnum.“
Þannig hefst grein undir fyrirsögninni Verðhrunið 1998-2004 - 50% lækkun, sem Kristinn H. Gunnarsson í Bolungarvík, fyrrv. alþingismaður og fyrrum stjórnarformaður Byggðastofnunar, sendi vefnum til birtingar. Síðar í greininni segir:
Hlutskipti Vestfirðinga er því miður allra verst. Ekki aðeins urðu þeir af eignaaukningu af hækkun fasteignaverðs, sem aðrir landsmenn hafa notið, heldur beinlínis lækkaði íbúðarhúsnæðið að raungildi um hvorki meira né minna en 28%. Skuldir vegna íbúðarhúsnæðis voru allar verðtryggðar á þessum árum og því rýrnaði skuldlaus eignarhlutur fjölskyldnanna.
Grein Kristins í heild er að finna hér og jafnframt undir Sjónarmið í valmyndinni vinstra megin.