Tenglar

5. mars 2017 | Sveinn Ragnarsson

Hlynur Þór Magnússon sjötugur

Hlynur varð 50 ára stúdent frá MR vorið 2016, en hann lauk stúdentsprófi rétt nítján ára. Myndin var tekin á afmælinu.
Hlynur varð 50 ára stúdent frá MR vorið 2016, en hann lauk stúdentsprófi rétt nítján ára. Myndin var tekin á afmælinu.

Sjötugur er í dag Hlynur Þór Magnússon. Hann hefur verið búsettur á Reykhólum núna í liðugan áratug, en tengsl við sveitina sköpuðust fyrir 35 árum, þegar hann var skólastjóri Reykhólaskóla um tíma. Ekki veit ég hvort í skólanum voru óvenju erfiðir nemendur, eða yfirleitt vegna hvers fyrrum fangavörður var fenginn til skólastjórnar. Þetta orðspor varð til þess að sumir báru óttablandna virðingu fyrir honum. Við aukin kynni hætti svo virðingin að vera óttablandin, því að meiri ljúfmenni en Hlynur eru vandfundin. Næsta aldarfjórðunginn starfaði hann við kennslu, ritstjórn og blaðamennsku. Lengst kenndi hann við Menntaskólann á Ísafirði en hafði náð því ungur syðra að kenna til hins illræmda landsprófs.

 

Blaðamannsferill hans er allnokkru lengri, en hann byrjaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu tvítugur að aldri eða fyrir hálfri öld núna í vor. Á Ísafirði var hann auk kennslunnar blaðamaður og ritstjóri á héraðsblöðum, bæði Vestfirska frétta-blaðinu og Bæjarins besta og reyndar fleiri blöðum samtímis. Hann ritstýrði líka vefútgáfu Bæjarins besta fyrstu árin. Við þessa blaðaútgáfu unnu þeir mikið saman Hlynur og Gísli heitinn Hjartarson. Eitt af því sem þeim datt í hug var að safna gamansögum af Vestfirðingum til birtingar. Þessar sögur rötuðu svo í bækur sem heita 101 vestfirsk þjóðsaga, og eru það mörg hundruð sögur samtals. Saga er af þeim félögum þar sem þeir eru að mæta á skrifstofuna, og Hlynur kvartar yfir því að vera slæmur í hausnum. Gísli segir að hann verði að drífa sig til læknis. Máli til stuðnings segist hann hafa verið slæmur í handleggnum og farið til læknis sem gerði aðgerð á honum, og hafi hann ekki fundið til í handleggnum síðan. Aðgerðin fólst í því að fjarlægja handlegginn.

 

Eins og áður segir fluttist Hlynur að Reykhólum fyrir tæpum 11 árum, og þá titlaði hann sig blekbónda. Það er skemmtilegt starfsheiti og á vel við, því hann hefur sinnt margs konar ritstörfum og ennfremur búið til prentunar ótal bækur og alls kyns ritverk, og tekið að sér prófarkalestur. Auk þess færði hann á sínum tíma í letur ævisögu séra Baldurs í Vatnsfirði.

 

Frá vorinu 2008 og þar til í haust sá Hlynur um vef Reykhólahrepps og hefur sinnt því af mikilli snilld. Verður satt að segja ekki létt verk að feta í þá slóð. Það segir meira en mörg orð, að fólkið í Reykhólahreppi útnefndi á liðnu sumri Hlyn ásamt Ingibjörgu Kristjánsdóttur til viðurkenningar sveitarfélagsins fyrir störf í þágu íbúanna.

Athugasemdir

Jónas Ragnarsson, sunnudagur 05 mars kl: 14:23

Framsetning Hlyns á íslensku máli hefur ávallt verið til mikillar fyrirmyndar, eins og meðal annars hefur mátt sjá á Reykhólavefnum, sem hefur verið með vinsælli sveitarfélagavefum, að ekki sé talað um ef miðað er við íbúafjölda. Hamingjuóskir úr snjónum syðra.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31