Hólabúð skiptir litum
Verslunin Hólabúð á Reykhólum er að taka stakkaskiptum þessa dagana. Torfi Sigurjónsson á Reykhólum er að mála húsið og var áður búinn að háþrýstiþvo viðinn undir málningu. Þrátt fyrir rigninguna í dag hélt hann sínu striki, málaði einfaldlega suðurgaflinn í skjóli fyrir norðaustanáttinni.
Á fyrri myndunum tveimur má sjá nýja litinn, þarna eru líka þeir Torfi og Reynir Þór Róbertsson kaupmaður. Þriðja myndin af húsinu var tekin fyrir fáeinum árum þegar búðin bar nafnið Hólakaup og birt hér til samanburðar.
Alls ekki skal lagður neinn dómur á litavalið fyrir og eftir, þar hefur hver sinn smekk; aftur á móti er það gömul speki að gaman sé að breyta til bara breytinganna vegna. Og auðvitað nauðsynlegt að mála öðru hverju til að verja timbrið.