Hörður Torfason með tónleika á Reykhólum
Söngvaskáldið Hörður Torfason verður með tónleika á Reykhólum annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Það er kominn tími til", segir hann. „Það hefur öðru hverju verið nefnt við mig gegnum árin að koma að Reykhólum með tónleika en það hefur aldrei orðið úr því fyrr en núna. Það var hringt í mig að vestan um daginn og ég sló til.“ Prógrammið segir hann verða svipað og á hausttónleikunum í Borgarleikhúsinu um daginn en með einhverjum viðbótum. „Þegar ég kem þar sem ég hef ekki spilað áður, þá er ég með dálítið flaggskip, bestu söngvana, og svo er fólk oft með óskalista. Ég er með 70-80 söngva að moða úr."
Hörður segist hafa samið minna síðustu árin en áður. „Núna undanfarin tvö og hálft ár hef ég verið að skrá ævisögu mína ásamt Ævari Erni Jósepssyni rithöfundi og það hefur tekið mikinn tíma. Bókin fer í prentun á mánudaginn. Það var búið að knýja á mig í mörg ár að segja sögu mína."
Tónleikar Harðar verða í matsal Reykhólaskóla og hefjast kl. 21. Aðgangseyrir er kr. 2.000. „Ég hlakka til að koma og vonast til að sjá sem flesta", segir hann. „Tónleikarnir verða skemmtilegastir þegar margir koma."