Tenglar

7. júní 2011 |

Horft til framtíðar í Flatey á Breiðafirði

Hvernig kemur samfélag sér saman um helstu gildi og framfaramál? Um þessar mundir undirbýr Framfarafélag Flateyjar svokallaðan Samfélagssamning Flateyinga. Samningurinn er afrakstur Eyjaþings sem haldið var í ágúst á síðasta ári. Samningurinn hefst á þessum orðum: „Okkur er ljóst að lífið hefur hagað því svo að við erum um skeið gæslumenn Flateyjar, náttúru, menningar og sögu, og fáum að njóta hér einstakra gæða meðan svo varir.“ Öllum sem þess óska og tengjast Flatey býðst að skrifa undir samninginn, íbúum sem eiga þar lögheimili eða hafa þar dvalarstað, þeim sem sinna þjónustu við Flatey og Flateyinga, þeim sem tengjast skipulags-, umhverfis- og verndarmálum og þeim sem fara með stjórnsýslu fyrir Flatey.

 

Nú er verið að kynna drög að samningnum fyrir þessum aðilum og má vera að hann breytist eitthvað í þeirri umræðu, en stefnt er að undirskrift í Flatey í sumar.

 

Með Eyjaþinginu tók Framfarafélag Flateyjar, í samstarfi við Reykhólahrepp, ferðaþjóna og fleiri, forystu um mótun framtíðarsýnar fyrir Flatey, enda getur sú auðlind sem Flatey er auðveldlega tapast ef ekki er að gáð.

 

Þeim málum sem helst voru til umræðu á Eyjaþinginu og brenna á heimamönnum var fylgt eftir með málþingi sem haldið var í Stykkishólmi í byrjun maí. Þar kynnti Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI skilaboð Eyjaþings, Rannveig Ólafsdóttir dósent við Háskóla Íslands fjallaði um þolmörk ferðamennsku, Áslaug Traustadóttir frá Landmótun kynnti stöðu skipulagsmála og hvernig skilaboð Eyjaþingsins nýtast í þeirri vinnu, og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga flutti erindi um stöðu Flateyjar í stjórnskipulagi. Tveir stjórnarmenn úr Framfarafélaginu luku síðan dagskránni. Heimir Sigurðsson kynnti hugmyndir að verkefnum og forgangsröðun og Guðrún Arna Gylfadóttir kynnti tillögu vinnuhóps að samfélagssamningi. Fundarmenn ræddu síðan málin og forgangsröðuðu verkefnum.

 

Félagið mun halda áfram í samstarfi við íbúa, Reykhólahrepp og aðra hagsmunaaðila að þoka málum áfram. Þess má geta að Ferðamálastofa veitti á þessu ári styrk til að bæta aðstöðu ferðamanna í Flatey og byggðist umsóknin m.a. á skilaboðum Eyjaþings. Í því verkefni verður lögð áhersla á samráð við heimamenn. Í bígerð er að Flateyingar haldi áfram að koma saman reglulega til að ráða ráðum sínum um málefni eyjarinnar. Þannig er ætlunin, eins og segir í drögum að samfélagssamningi, „... að gera það sem í okkar valdi stendur til að standa saman um farsæla framtíð Flateyjar“.

 

03.05.2011  Framfarafélag Flateyjar efnir til málþings

 

Framfarafélag Flateyjar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31