Hreppurinn vill kaupa Prestsfjárhúsin og Preststúnið
Sveitarstjóra var á síðasta fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps falið að gera fyrir hönd hreppsins tilboð í eignirnar Prestsfjárhús og Preststún, samtals upp á kr. 1.800 þúsund, og til vara upp á kr. 1.200 þúsund eingöngu í Prestsfjárhús og tilheyrandi lóð. Báðar eignirnar eru í jöðrum þorpsins á Reykhólum. Prestsfjárhúsin eru nokkuð neðan við prestssetrið undir Hellishólum en Preststúnið vestur af dvalarheimilinu Barmahlíð, milli Vesturbrautar og skógræktarinnar (sjá meðf. myndir).
Eigandi þessara eigna er Kirkjumálasjóður og hefur hann lýst þeim vilja sínum að selja þær.
Prestsfjárhúsin eru í rauninni bæði fjárhús og hlaða, byggð árið 1960, og standa á eignarlóð sem er rétt tæplega þriðjungur úr hektara (3.240 fermetrar). Hjá Fasteignamati ríkisins er hún skráð sem iðnaðar- og athafnalóð. Útihúsum þessum fylgir sú kvöð að hýsa safnkost Bátasafns Breiðafjarðar fram á mitt næsta sumar. Preststúnið er ræktað land, rétt um 5,5 hektarar að stærð.
Langt er síðan prestur á Reykhólum hefur stundað búskap og nytjað túnið eða notað fjárhúsin.
Myndirnar eru unnar úr ljósmyndum sem Árni Geirsson tók fyrir nokkrum árum.
Þrymur Sveinsson, sunnudagur 19 oktber kl: 19:43
Ekki lengra er lengra síðan að sr. Bragi Benediktsson var með kindur í prestsfjárhúsunum og sinnti sínum búskap eins og sannur Jökuldælingur.