Hringtenging á Vestfjarðakjálkanum í uppnámi
Hringtenging ljósleiðara, baráttumál í mörg ár vegna netöryggis á Vestfjarðakjálkanum, er í uppnámi eftir tilboð Mílu í lagningu ljósleiðara um Ísafjarðardjúp milli Nauteyrar og Súðavíkur. Míla átti eina tilboðið og hljóðar það upp á 369,5 milljónir króna, eða liðlega 270 prósent yfir kostnaðaráætlun, sem var 136,3 milljónir króna.
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, segir að á fjárlögum hafi verið gert ráð fyrir 248 milljónum króna samanlagt vegna þessarar tengingar í Ísafjarðardjúpi og tenginga fyrir Drangsnes, Kópasker og Raufarhöfn. „Þegar það kemur 370 milljóna króna tilboð bara í Djúpið, þá er ljóst að verkefnið er í uppnámi,“ segir Aðalsteinn í samtali við fréttavefinn bb.is á Ísafirði.
Aðalsteinn segir ekki ljóst hver næstu skref verða, hvort aukið framlag komi frá ríkinu eða hvort aðrar leiðir verði skoðaðar. Í fyrri áfanga hringtengingar á Vestfjörðum, sem var lagning ljósleiðara frá Stað í Hrútafirði til Hólmavíkur, var samstarf milli Mílu og Orkubús Vestfjarða. Þar var tilboðið rúmar 50 milljónir króna en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 130 milljónir, eða mjög svipað og kostnaðaráætlunin varðandi Ísafjarðardjúp.