Tenglar

14. febrúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Hugmynd um virkisbyggingu á Reykhólum kynnt

Virkishugmynd Sigurðar málara. Sjá nánar í meginmáli.
Virkishugmynd Sigurðar málara. Sjá nánar í meginmáli.

Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps í gær var lagt fram til kynningar bréf frá Guðjóni Dalkvist Gunnarssyni og Birni Samúelssyni varðandi byggingu miðaldavirkis á Reykhólum. Þar er væntanlega vísað til virkis þess sem sögur herma að hafi verið á Reykhólum á ofanverðri 15. öld. Hugmyndinni að virkisgerð á Reykhólum varpaði Guðjón fram í greinarkorni hér á vefnum fyrir nokkrum vikum. Í bréfi þeirra Guðjóns og Björns til sveitarstjórnar segir:

 

Við undirritaðir erum mjög áhugasamir um að byggja miðaldavirki frammi á Kaldrananum fyrir vestan kirkjuna á Reykhólum. Virkið er hugsað sem tilgátuvirki hlaðið úr tilhöggnu grjóti eins og hleðslan sem er byrjað á við kirkjugarðinn, það er spurning hver verður á undan. Virkið er eingöngu hugsað til að draga að ferðafólk til Reykhóla en ekki til að efna til ófriðar af neinu tagi. Þar sem engin uppistandandi virki eru á Íslandi nema Borgarvirki fyrir norðan, en það er að mestum hluta náttúruleg smíði, finnst okkur tilvalið að reisa það á Reykhólum og minnast sögunnar og verða á undan öllum öðrum að fá þessa frábæru hugmynd, en nokkrir staðir á landinu gætu fengið áhuga á málefninu.

 

Við höfum gengið á fund byggingafulltrúa, sem svo skemmtilega vill til að er af ættinni sem barðist við Reykhólamenn 8. janúar 1483, og höfum kynnt honum málið. Hann sá ekki vandamál við að koma þessari hugmynd inn í skipulagsferlið. Byggingafulltrúi bað okkur að hafa samband við minjavörð Vesturlands, sem við gerðum. Hann er væntanlegur hingað í vor og ætlar að skoða aðstæður á Kaldrana vegna hugsanlegra minja á svæðinu og miltisbrandsmerkingar sem er fremst á rananum.

 

Einnig segir í bréfinu, að bílastæði við virkið myndi jafnframt þjóna sem bílastæði fyrir kirkjugesti. Bréfið er sagt hugsað til kynningar á verkefninu, en það sé á frumstigi og fjármögnun þess enn á umræðustigi.

 

Bréfinu fylgir meðfylgjandi teikning Sigurðar málara (1833-1874) af miðaldavirki samkvæmt hugmyndum hans. Teikningin er fengin úr bókinni Mannvist eftir Birnu Lárusdóttur fornleifafræðing. Þar fylgir þessi texti: Virkisbúð á Þingvöllum eins og Sigurður Guðmundsson, málari, sá hana fyrir sér. Prentuð í riti Sigurðar, Alþingisstað hinum forna við Öxará, sem út kom 1878.

 

Hugmynd Guðjóns og Björns er sú, að virkið yrði í sama byggingarstíl og hleðslan kringum Reykhólakirkjugarð sem Ari Jóhannesson hleðslumeistari er kominn nokkuð á veg með.

 

_______________________________

 

P.s. Úr því að Kaldraninn kemur hér við sögu er ekki úr vegi að minna á frásögnina af öfugugganum í Grundarvatni og afdrifum fólksins á Reykhólahjáleigunni Kaldrana. Um þann hörmulega atburð var þessi vísa kveðin eins og frægt er: 

Liggur lífs andvana

lýður á Kaldrana,

utan sú eina seta

sem ekki vildi éta.

 

Athugasemdir

Hjalti, fstudagur 14 febrar kl: 11:32

Þetta er áhugaverð hugmynd sem skemmtilegt væri að skoða nánar með afþreyingu ferðamanna í huga. Möguleikar á skemmtilegum uppákomum, til lukku með þetta félagar.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31