Hugmyndabankinn fyrir þorrablótið opnaður
Hugmyndakassinn er kominn í verslunina Hólakaup á Reykhólum og í hann má stinga skemmtiefni af hvaða tagi sem er. Framlög þurfa að hafa borist í síðasta lagi föstudaginn 15. janúar. Innistæðunnar í þessum hraðbanka hugmyndanna verður síðan notið sameiginlega á blótinu.
Þorri er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Hann hefst í þrettándu viku vetrar, á tímabilinu 18.-24. janúar miðað við það tímatal sem nú er notað, og alltaf á föstudegi, að þessu sinni föstudaginn 22. janúar. Fyrsti dagur þorra er bóndadagurinn en síðasti dagur hans nefnist þorraþræll. Daginn eftir þorraþræl byrjar svo góa og fyrsti dagur hennar er konudagurinn.
Myndin sem hér fylgir er af hugmyndakassanum á síðasta ári. Núverandi kassi er svipaður að gerð og tilgangurinn er nákvæmlega hinn sami.