Tenglar

27. nóvember 2012 |

Hús Bátasafns Breiðfirðinga í biðstöðu

Efni híft á flutningavagninn.
Efni híft á flutningavagninn.
1 af 5

Viðirnir og annað efni í væntanlegt bátaskýli Félags áhugamanna um bátasafn Breiðfirðinga á Reykhólum var í dag flutt frá Reykhólahöfn út á Miðjanes til geymslu. Félagið hefur sagt sig frá áður fyrirheitinni lóð á nýju uppfyllingunni við höfnina á Reykhólum og hyggst finna sér nýjan stað. Að sögn Hafliða Aðalsteinssonar úr Eyjunum, formanns félagsins, hamlaði fjárskortur framkvæmdum að sinni og vildi félagið ekki standa í vegi annarra sem vildu nýta sér þennan ágæta stað og hafa sóst eftir honum.

 

Byggingarefnið sem núna var flutt af lóðinni við Reykhólahöfn er sundurtekið gamla flugskýlið á flugvellinum við Patreksfjörð sunnanverðan. Félag áhugamanna um bátasafn Breiðfirðinga á Reykhólum keypti flugskýlið til niðurrifs, en hætt var að nota það fyrir mörgum árum. Síðan var það sundurtekið flutt að Reykhólum.

 

„Þarna vakir fyrst og fremst fyrir okkur að vera ekki í vegi þeirra sem vilja skapa varanleg störf í sveitarfélaginu og þess vegna gáfum við þessa lóð eftir. Þessari byggingarlóð hafði ekki verið úthlutað okkur formlega heldur höfðum við aðeins fengið vilyrði fyrir henni. Síðan vorum við heldur ekki í stakk búnir að reisa húsið strax. Okkur fannst sjálfsagt að hliðra til þegar þannig stendur á, að einhverjir vilja koma þarna og koma með störf inn í sveitarfélagið,“ segir Hafliði Aðalsteinsson.

 

Hafliði segir ekkert ákveðið og raunar ekkert rætt ennþá hvar félagið muni bera niður í staðinn. „Okkur langar að vera niðri við sjóinn með bátasafnið og bátaskýlið okkar. Þegar við eignumst nóga peninga finnum við okkur góðan stað, helst á Reykhólum eða þar í grennd. Fyrst og fremst er þetta hugsað sem bátageymsla og aðstaða til bátaviðgerða.“

 

Fyrstu þrjár myndirnar sem hér fylgja eru teknar við Reykhólahöfn í morgun. Þar eru Gunnbjörn Óli Jóhannsson verktaki á Kinnarstöðum með flutningavagninn, Guðlaugur Theodórsson á Reykhólum með kranann og Hafliði Aðalsteinsson formaður Félags áhugamanna um bátasafn Breiðfirðinga að segja til.

 

Smellið á myndirnar til að stækka þær.

 

09.12.2010 Varnargarður við Reykhólahöfn er nánast bylting (fjöldi mynda)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31