Húsfyllir hjá Framsókn á Reykhólum
Um þrjátíu manns komu á fundinn sem frambjóðendur Framsóknar efndu til á Reykhólum í dag og mátti þar sjá „allra flokka kvikindi“ eins og vera ber. „Við erum mjög ánægð með fundarsóknina,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Framsóknar í NV-kjördæmi eftir fundinn.
„Menn spurðu okkur margs, ekki síst um samgöngumál, landbúnað og atvinnumál yfirleitt. Andinn á fundinum var mjög góður. Það er ánægjulegt að koma á svona stað þar sem verið er að reyna að gera eitthvað nýtt. Það er alveg ljóst að á Reykhólum eru mikil tækifæri til atvinnusköpunar og íbúafjölgunar, hvort sem það er kringum heita vatnið eða landbúnaðinn eða annað,“ sagði Gunnar Bragi.
Fundurinn var haldinn í kaffistofu SjávarSmiðjunnar í verkstæðishúsinu gamla vestan undir bæjarhólnum á Reykhólum sem gert var upp fyrir fáum árum en það gamla og hrjúfa þó látið halda sér. Húsfyllir var en vissulega væri hægt að bæta við fleiri lausum stólum ef svo bæri undir.
„Það var fínt að halda fundinn þarna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.
Fundinn héldu fjögur efstu á lista flokksins í kjördæminu, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Nú er að sjá hvort aðrir flokkar og framboð fylgi dæmi framsóknarmanna og haldi almenna fundi á Reykhólum í aðdraganda þingkosninganna. Ljóst má vera, að áhugi heimafólks er fyrir hendi.
Því verður veitt athygli hverjir það gera.
Skemmtilegast væri þó ef framboðin flest eða öll gætu komið sér saman um að halda sameiginlegan fund á Reykhólum og senda þangað einn fulltrúa hvert. Ef framboðin verða hálfur annar tugur eða svo, eins og líkur benda til, þá myndi kaffistofan í SjávarSmiðjunni ekki rúma slíkan fund. Aftur á móti er nóg pláss í íþróttahúsinu.
Reykhólar eru miðsvæðis í Norðvesturkjördæmi (sjá kortið á mynd nr. 4). Að líta á kortið segir þó ekki allt um vegalengdir. Þar má nefna, að frá Patreksfirði að Reykhólum er lengri akstur en frá Borgarnesi að Reykhólum. Ekki munar miklu á vegalengdum frá Ísafirði og frá Sauðárkróki að Reykhólum.
- h