Húshitunin dýra á Reykhólum og auðlindaskatturinn
Einar Sveinn Ólafsson, sem búsettur er á Reykhólum, hefur gert samanburð á kostnaði við húshitun með heitu vatni á ýmsum stöðum og sent vefnum til birtingar. „Eftirtektarvert er að sjá þarna hver vilji stjórnvalda er til að styðja við búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins. Reykhólabúinn greiðir mun meira í umhverfis- og auðlindaskatt af heita vatninu en t.d. viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur. Og til að bíta höfuðið af skömminni leggst síðan virðisaukaskattur á auðlindaskattinn,“ segir hann.
„Við erum á toppnum og greiðum til Orkubús Vestfjarða og ríkisins rúmar 200 þúsund krónur á ári miðað við þessar forsendur.“
Í útreikningum sínum miðar Einar Sveinn við 150 fermetra einbýlishús og 810 rúmmetra notkun á heitu vatni á ári auk fastagjalds. Vegna hins geysiháa verðs á heita vatninu á Reykhólum er umhverfis- og auðlindaskatturinn sem bætist þar ofan á hærri í krónum talið á Reykhólum en hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sem nemur hlutfallslega mismuninum á rúmmetraverðinu. Hið sama gildir svo auðvitað um virðisaukaskattinn.
Á myndunum eru bæði stöplarit og tafla sem tala sínu máli um mismunandi kostnað og skattlagningu. Smellið á myndirnar til að stækka þær.
Guðjón D. Gunnarsson, fimmtudagur 22 nvember kl: 16:47
Gott að komið er fyrir almenningssjónir, það sem vitað var, síðan hitaveitan var seld. Þetta sýnir vel hug Ríkisins til okkar.