Tenglar

29. mars 2011 |

Húsin í Flatey - grein og óvenjulegar vetrarmyndir

Séð niður Götuskarðið þar sem Reiturinn og plássið blasa við. Ljósm. Ágúst Atlason.
Séð niður Götuskarðið þar sem Reiturinn og plássið blasa við. Ljósm. Ágúst Atlason.
Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifar öðru hverju greinar á bloggi sínu á vefritinu Eyjunni um sitthvað er varðar húsagerðarlist og skipulagsmál. Í gær birti hann grein sem ber heitið Húsin í Flatey - I. Þeirri umfjöllun fylgja skemmtilegar vetrarmyndir úr Flatey á Breiðafirði, sem Ágúst Atlason tók á ferð sinni þar fyrir skömmu. „Það er óvenjulegt að sýndar séu vetrarmyndir frá Flatey“, segir Hilmar Þór. Enn skal á það minnt, að Flatey er, eins og mestur hluti Breiðafjarðareyja, innan vébanda Reykhólahrepps. Inngangsorð Hilmars Þórs eru á þessa leið:

 

„Áður en vegakerfi varð almennt voru samgöngur á sjó aðgengilegastar til vöru- og fólksflutninga. M.a. vegna þessa varð Flatey helsta verslunar- og menningarmiðstöð við Breiðafjörð, sem þjónaði byggðinni á ströndinni umhverfis fjörðinn og myndaðist þarna snemma raunverulegt þéttbýli. Staðsetning eyjarinnar, höfnin og aðrir landkostir voru ákjósanlegir fyrir þjónustumiðstöð. Þarna varð fljótt menningarsetur, með kirkju, klaustri og miðstöð verslunar, samgangna, útgerðar og landbúnaðar.

 

Um 1960 varð breyting og fólk fluttist frá eynni. Í kjölfarið var húsum illa haldið við, þar til fólk fór að tínast þangað í frítíma sínum til hvíldar og til þess að njóta þeirrar náttúruperlu sem Flatey er.

 

Enduruppbygging Flateyjar hófst með endurbyggingu Bókhlöðunnar á árunum 1979-1988. Síðan þá hefur endurreisnarstarfið staðið óslitið og er nú svo komið að þarna er eitthvað fallegasta og best varðveitta húsasafn sem finnst á Íslandi. Sagt er að tíminn hafi staðið í stað þarna í um 100 ár.

 

Ég ætla að segja örstutt frá nokkrum húsanna í Flatey í þessari færslu.“

 

Grein Hilmars Þórs Björnssonar í heild ásamt myndum

 

Myndasmiðurinn (og margmiðlunarhönnuðurinn) Ágúst Atlason er Ísfirðingur en dvelst þessi árin á skólasetrinu Bifröst í Borgarfirði. Mörg undanfarin ár hefur hann lagt stund á ljósmyndun með mjög góðum árangri, þótt hann sé sjálfmenntaður að mestu og taki jafnan fram að hann sé áhugaljósmyndari til þess að stíga ekki á tærnar á réttindafólki í þeirri grein. Ágúst hefur annast mörg stærri og smærri ljósmyndaverkefni. Sumarið 2008 ferðaðist hann um Reykhólahrepp og tók myndir af náttúru og mannlífi í héraðinu. Undir Ljósmyndir > Ýmis myndasöfn í valmyndinni hér til vinstri má fara inn á ljósmyndavef hans.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30