Tenglar

1. nóvember 2011 |

„Hvað um birkið í Ódrjúgshálsi?“

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

„Að ætla sér að fara að leggja nýjan veg um Hjallaháls finnst mér fráleit hugmynd, sá háls er nokkru hærri en Víkurskarð, sem talinn er slíkur farartálmi að jarðgöng þurfi undir Vaðlaheiði. Ég hef margoft ekið Hjallaháls að vetri til og veðurfar þar er það sama og á Þorskafjarðar- og Steingrímsfjarðarheiði, enda Hjallaháls jarðfræðilega framhald af þeim heiðum þó að lægri sé en þær. Á Hjallahálsi hef ég upplifað að vetri til snarvitlaust veður, skafrenning og snjókomu þó að sæmilegt sé annars staðar.“

 

Þetta segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir í Mýrartungu II, fyrrum alþingismaður og fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar minnir hún á, að á sínum tíma var fyrsti kostur sveitarstjórnar Reykhólahrepps að farin yrði A-leiðin út Reykjanesið og yfir mynni Þorskafjarðar í Skálanes.

 

„Með því kæmu Reykhólar í þjóðbraut, en á þessari leið frá Búðardal til Patreksfjarðar er enginn þéttbýlisstaður annar. Og við fundum norska tillögu í byggðaáætlun fyrir Vestfirði frá árunum kringum 1960 þar sem gert var ráð fyrir brú á þessum stað, ekki ósvipaða og nú er á Mjóafirði í Djúpi.“

 

Varðandi heimsókn ráðherra samgöngumála þegar hann efndi til opins fundar í Bjarkalundi í haust segir Jóna Valgerður:

 

„Nú var okkur sagt að það yrði að laga þann veg sem fyrir er eða leggja nýjan um hálsana, vegna þess að nýtt umhverfismat fyrir B-leið mundi fara á sama veg og áður. En þarf ekki umhverfismat fyrir Hjallaháls og Ódrjúgsháls? Á Hjallahálsi er búið að gera margar veglínur allt frá upphafi vegalagningar. A.m.k. má sjá þar ótal vegaspotta sem skera hlíðarnar, svo að stingur í augun. Er það ekki umhverfismál að fara að rífa og tæta þessar hlíðar einu sinni enn? Hefur nokkuð verið rannsakaður gróður og jurtalíf þar? Getur það ekki verið jafn merkilegt og Teigsskógur? Hvað um birkið í Ódrjúgshálsi? Og hvað er Teigsskógur? Jú, ljómandi fallegt birkikjarr, svipað og er í öllum þessum hlíðum sem snúa móti suðri í Barðastrandarsýslum. En hvers vegna má ekki leggja veg þar?

 

Þegar nýr vegur var lagður um Barmahlíð að Reykhólum árið 2001 var farið gegnum sjálfsprottinn birkiskóg og skógrækt þar sem gróðursett voru bæði grenitré og lerki. Þar hefur m.a. mælst hæsta tré á Vestfjörðum. En þau tré sem voru í veglínunni voru gróðursett annars staðar, eða nýtt sem jólatré. Öllu efni var keyrt að í veginn, engu rótað upp. Ég sé ekki annað en að þarna hafi vel tekist til, vegurinn í gegnum skóginn er til fyrirmyndar.“

 

Grein Jónu Valgerðar má lesa í heild undir Sjónarmið / Aðsent efni í valmyndinni hér vinstra megin.

 

Athugasemdir

Sigurður Hreinsson, laugardagur 05 nvember kl: 10:00

Aðeins varðandi A-leiðina. Nú talar Vegagerðin um að brú á þeirri leið sé svo dýr, en hafa menn ekkert skoðað að fara þá leið í jarðgöngum ? Þarna er fjörðurinn ekki nema rúmir 3 km og líklega yrðu göng undir fjörðinn þá ekki mikið meira en 4,5 km, eða lítið lengri en hugsanleg göng undir Hjallaháls. Í kostnaðarsamanburði er líklegt að göng á A-leið séu einungis uþb. 60% af kostnaði við brú á sama stað. Alveg þess virði að skoða.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31