Tenglar

18. febrúar 2015 |

Hvaða námskeið vill fólk í héraðinu helst fá?

María Maack.
María Maack.

María Maack hefur unnið í afleysingum á skrifstofu Reykhólahrepps síðan í haust en hættir þar í vor. „Mér finnst rétt að nýta mína löngu reynslu af rannsóknum og kennslu, leiðsögn og þróun ferðaþjónustu og hafði samband við Fræðslumiðstöð Vestfjarða, og þar var ég fengin beint í kennslu. Hjá Þörungaverksmiðjunni hefur verið talað um að tilfinnanlega vantaði að starfsmenn þar kynnu að notfæra sér töflureikni eða Excel-forrit. Þar sem ég hef notað þetta forrit mikið á undanförnum áratugum tók ég að mér að kenna það. Áhuginn þar er mikill en mér virðist að hann sé líka til staðar hérna uppi í þorpi,“ segir María.

 

„Þetta verður fyrsta verkefni mitt í tengslum við Fræðslumiðstöðina. Síðan datt mér í hug að bjóða námskeið hér á Reykhólum í þjálfun í talaðri ensku, væntanlega í maí. Ég er þó ekki alveg búin að tímasetja það, ég vil gera það í samráði við fólkið hér á svæðinu. Þetta námskeið væri ekki síst gagnlegt fyrir þá sem eru í tengslum við erlenda ferðamenn á Reykhólum og í héraðinu yfirleitt, að geta tjáð sig og gefið sig á tal við fólk. Það námskeið verður líka haldið í tengslum við Fræðslumiðstöð Vestfjarða.“

 

María hefur verið í enskumælandi háskólum erlendis og unnið mikið á ensku, þýsku, frönsku, sænsku og dönsku. Þannig má nefna, að doktorsverkefnið sem hún er rétt að ljúka skrifar hún á ensku. Það fjallar um heildaráhrif þess á samfélagið að nota rafmagn og vetni í landsamgöngum í stað innfluttrar olíu.

 

Athygli vekur, að auk Fræðslumiðstöðvarinnar er Vistmenning skrifuð fyrir Excel-námskeiðinu. Þegar María er spurð hvað sé þar um að ræða segir hún:

 

„Vistmenning er fyrirtæki sem ég stofnaði núna fyrir áramót. Vistmenning snýst almennt um sjálfbært samfélag, þar sem menntun, menning og félagsfærni eru einn þátturinn, varleg auðlindanotkun annar og skynsamleg fjárhagsstjórn sá þriðji. Líka skilningur á hringrásum náttúrunnar, jafnræði og samskipti við aðra, og góð innsýn í fjármál er nauðsynleg. Þar kemur sér vel að geta unnið á Excel. Til dæmis er eitursnjallt að notfæra sér þá kunnáttu við heimilisreksturinn, svo að eitt dæmi sé tekið.“

 

Meðal annars hefur María unnið við vistmenningu innan ferðaþjónustunnar með því að nýta óefnisleg gæði eins og Íslandssöguna. Þannig vann hún á sínum tíma með fólki á Norðurlandi við að tengja söfnin í Glaumbæ í Skagafirði, á Hofsósi, Siglufirði og Hólum í Hjaltadal.

 

„Við vorum að reyna að móta hugmyndir þannig að hægt væri að fara um þessi héruð, læra um sögu fólksins og lifnaðarhætti frá landnámi og fram til iðnvæðingar,“ segir hún. „Um leið er fjallað um hvernig hægt er að lifa af landsins gagni og nauðsynjum og skapa jafnframt menningarleg verðmæti. Þetta verkefni var kallað Saga á Tröllaskaga. Líka hef ég verið í þróunarverkefnum fyrir ferðaþjónustu í Mývatnssveit. Síðar vann ég mikið sem verkefnastjóri í Evrópusamstarfsverkefnum um orku, þátttöku almennings að breytingum í samfélaginu með vinnustofum og borgaraþingum. Í rauninni hef ég alltaf unnið við einhver afmörkuð verkefni, bæði í rannsóknum og öðru, en lengst af hef ég unnið hjá Íslenskri NýOrku og verið kennari og leiðsögumaður um leið. Ég kenndi lengi um grasafræði, dýrafræði og náttúrvernd í leiðsöguskólanum í Kópavogi.“

 

María hefur unnið mikið við almenningsfræðslu og umhverfismál. Hún er sjávarlíffræðingur að mennt, og núna fyrir páskana mun hún líka að halda námskeið hjá Háskólasetri Vestfjarða, sem er með aðsetur á Ísafirði.

 

„Við verðum tvö, Þjóðverji sem heitir Peter Krost og ég, sem kennum á námskeiði um sjálfbærar sjávarnytjar. Það verður annars vegar haldið á Tálknafirði og síðan hér á Reykhólum í dymbilviku. Annars vegar er fjallað um sjávareldi (eða hafbúnað, samanber landbúnað) og hins vegar nýtingu á botnlægum tegundum.“

 

Fyrir utan þessi námskeið sem nefnd hafa verið þætti Maríu gott að heyra af því ef það er eitthvað sérstakt sem fólk hérna í héraðinu vill læra, svo sem varðandi náttúrufræði, tölvunotkun, tungumál eða annað. „Það er margt sem kæmi til greina sem ég gæti sinnt, þó að að kennsla verði alls ekki eina viðfangsefni mitt eða Vistmenningar.“

 

Öll námskeiðin sem hér hefur verið rætt um, bæði sjávarnytjanámskeiðið um páskana og önnur, eru öllum opin, þó að fyrst og fremst séu þau ætluð fullorðnum. „Krakkarnir bjarga sér alveg á enskunni, en hinir fullorðnu þurfa oft meiri æfingu“, segir María Maack, líffræðingur og doktorsnemi og altmuligmand á Reykhólum.

 

 

Netfangið hjá Maríu er kriamari@gmail.com. Hafið samband til að forvitnast um námskeiðin og koma á framfæri óskum um námskeið.

 

Athugasemdir

Dalli, mivikudagur 18 febrar kl: 15:13

Happafengur fyrir okkur að fá þessa "ofurkonu".

Torfi, mivikudagur 18 febrar kl: 16:54

Sammála Dalla, það er ekkert ómögulegt fyrir þessa konu!
Og að hafa þessi hjón í okkar litla samfélagi er ómetanlegt...

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30