Tenglar

28. ágúst 2008 |

Hvellur í eldhúsinu í Bjarkalundi

Árni Sigurpálsson hótelstjóri.
Árni Sigurpálsson hótelstjóri.

Rífandi gangur hefur verið í Hótel Bjarkalundi í Reykhólasveit í sumar. „Aukningin er um 35-40 prósent frá því í fyrra, bæði í gistingu og mat", sagði Árni Sigurpálsson hótelstjóri í Bjarkalundi í samtali við vefinn í gærkvöldi. Hann viðurkennir að stundum hafi verið erfitt að taka á móti öllum þessum fjölda. „Húsið er alveg sprungið utan af okkur þegar við fáum stóra hópa inn, eins og núna í kvöld þegar við tókum á móti 120 krökkum af Akranesi í mat. Það var óneitanlega dálítill hvellur hjá okkur í eldhúsinu."

 

Í fyrra og núna í sumar hafa verið byggð sex sumarhús rétt við hótelið. Þau hafa komist í gagnið eitt af öðru og tekið við kúfnum af gistingunni. Eitt hús á enn eftir að bætast við og verður það allmiklu stærra en hin eða tæplega 60 fermetrar. Árni segir vonir standa til að það rísi þegar í haust. „Síðan verður lagað til og snyrt hér í kring og grædd þau sár sem byggingaframkvæmdirnar hafa óhjákvæmilega haft í för með sér. Við ætlum að koma upp fleiri rafmagnsstaurum á húsbílasvæðinu og jafnframt stendur til að leggja bundið slitlag á planið hérna við hótelið."

 

Árni segir að stefnt sé að villibráðarkvöldum í Hótel Bjarkalundi þegar líður fram á vetur. Þar á meðal verður þar veglegt jólahlaðborð með vestfirskri villibráð.

 

Sú var tíðin að full dagleið var frá Reykjavík og vestur í Bjarkalund. Þegar hótelið var byggt fyrir liðlega sextíu árum var helsta hlutverk þess að vera áningarstaður og náttstaður þeirra sem ferðuðust milli höfuðstaðarins og suðursvæðis Vestfjarða. Núna er ekki nema tveggja og hálfs tíma akstur frá Reykjavík og vestur í þetta elsta sveitahótel landsins, og alla leiðina á bundnu slitlagi.

 

Því má bæta við, að von er á svöngum og þyrstum og þreyttum gestum í Bjarkalund síðdegis á sunnudag ...

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30