Tenglar

14. september 2014 | vefstjori@reykholar.is

Hver er þessi Jón Daði sem kom eins og þruma?

Jón Daði Böðvarsson / Viking.
Jón Daði Böðvarsson / Viking.

Jón Daði Böðvarsson stimplaði sig með miklum glæsibrag inn í A-landslið Íslands í fótbolta þegar 3-0 sigur vannst á Tyrkjum í vikunni og skoraði auk þess fyrsta markið. Þetta var fyrsti „alvöru“ landsleikur þessa unga og bráðefnilega sóknarmanns, sem leikur í efstu deildinni í Noregi með Viking í Stafangri, en áður hafði hann spilað æfingaleiki með A-landsliðinu og landsliðum yngri flokka. Ástæða þessarar „íþróttafréttar“ á vef Reykhólahrepps er sú, að móðir þessa unga manns er úr Reykhólasveit, dóttir hjónanna Ólínu og Sveins heitins á Miðhúsum.

 

Móðir Jóns Daða er Ingibjörg Erna Sveinsdóttir frá Miðhúsum en faðir hans er Böðvar Bjarki Þorsteinsson. Foreldrar Böðvars voru Ásta Sigurðardóttir rithöfundur og Þorsteinn frá Hamri ljóðskáld. Þau Ingibjörg og Böðvar eru löngu skilin. Jón Daði er fæddur í Reykjavík en byrjaði á ungum aldri að spila með liði Selfoss þar sem foreldrar hans bjuggu þá og gerði það síðan uns hann fór í atvinnumennsku. Unnusta hans er María Ósk Skúladóttir, ættuð frá Kirkjubæjarklaustri.

 

Þegar Ingibjörg Erna móðir Jóns Daða er spurð hvernig hún vilji lýsa stráknum sínum, þá segir hún einfaldlega: Hann er drengur góður. Og þegar hún er spurð frekar, þá bætir hún við: Hann má ekkert aumt sjá. Og spurningunni hvort hann sé metnaðargjarn svarar hún: Kannski öllu heldur kappsfullur, framfylgir draumum sínum, þetta var það sem hann dreymdi alltaf um.

 

Valið á Jóni Daða í landsliðið kom ýmsum á óvart enda töldu víst flestir líklegt að fyrir valinu yrði Viðar Örn Kjartansson frá Selfossi. Viðar Örn hefur aldeilis farið á kostum í sókninni með Vålerenga, sem er líka í efstu deildinni í Noregi. Núna í dag skoraði hann þrjú mörk í 4-1 sigri á Haugasundi og setti þar með met í markaskorun hjá félaginu á einni leiktíð. Hann hefur nú þegar skorað 24 mörk í 23 leikjum og enn eru sjö leikir eftir.

 

Hvað sem því líður, þá brást Jón Daði sannarlega ekki þeim væntingum sem til hans voru gerðar í fremstu víglínu íslenska landsliðsins. Sparkspekingar segja að val Jóns Daða í sóknina sé einfaldlega vitnisburður um mjög vandaða heimavinnu Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara og Heimis Hallgrímssonar aðstoðarmanns hans.

 

„Þetta var æðislegt og framar vonum, ef ég á að segja alveg eins og er. Það var frábært að byrja með svona sterkum sigri og gríðarlega mikilvægt upp á framhaldið að gera,“ sagði Jón Daði í samtali við vefinn visir.is að leik loknum. Hann þakkaði traustið með marki og frábærum leik, sagði í fréttinni. Hann sagði að það hefði ekki komið honum neitt sérstaklega á óvart að vera í byrjunarliðinu. „Nei, svo sem ekki. Mér finnst ég vera búinn að standa mig vel. Það hefði hins vegar ekki heldur komið á óvart ef einhver annar hefði byrjað inn á í staðinn fyrir mig.“

 

Í frétt á RÚV sagði m.a.: Jón Daði Böðvarsson fékk óvænt tækifæri í byrjunarliðinu en hann hafði aðeins leikið þrjá æfingaleiki með landsliðinu. Jón Daði sagðist enda alls ekki geta kvartað eftir kvöldið, sem gæfi honum mikið sjálfstraust. Hann hefði samt alltaf haft fulla trú á sjálfum sér. Flestir reiknuðu eflaust með því að Viðar Örn Kjartansson yrði í fremstu víglínu ásamt Kolbeini Sigþórssyni, enda hefur Viðar Örn skorað mörk í norsku úrvalsdeildinni eins og að drekka vatn. Landsliðsþjálfararnir veðjuðu hins vegar á Jón Daða sem launaði þeim traustið og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á 18. mínútu. Jón Daði sagði eftir leikinn að hann hefði lagt hart að sér á æfingum. „Ég hafði fulla trú á mér á æfingum og náði að sýna mig og sanna. Ég komst vel inn í hópinn og strákarnir hafa verið algjörir fagmenn.“

 

Þess má geta til viðbótar fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði, að langafi Jóns Daða var Jón Daðason bóndi á Miðhúsum í Reykhólasveit, sonur Maríu Magdalenu Andrésdóttur úr Breiðafjarðareyjum, systur skáldsystranna Herdísar og Ólínu. María sem bjó alla tíð við Breiðafjörðinn var á sinni tíð sá Íslendingur sem náð hafði hæstum aldri, en hún varð 106 ára.

 

Meira varðandi ættfræði fyrir þá sem hafa áhuga á slíku:

Ættmóðirin Sesselja Jónsdóttir úr Svefneyjum

 

Ekki er ósennilegt að á næstu dögum verði hér á vefnum einnig getið lítillega um annan landsliðsmann með rætur í héraðinu, en sá er alveg nýbúinn að taka utan um páfann. Afi hans og alnafni var bóndi í Geiradal.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31