Hver kann deili á þessum steini?
Þessa mynd af næsta sérkennilegum steini tók Úlfar B. Thoroddsen á Patreksfirði sumarið 2007 þegar hann var á ferð um Hallsteinsnes í Gufudalssveitinni gömlu í Reykhólahreppi. „Þá gekk ég fram á steininn og þótti hann athyglisverður. Mér datt helst í hug að hann hefði verið notaður sem einhvers konar festa fyrir báta. Hann gæti hafa verið til annarra nota. Ég ætlaði fyrir löngu að vera búinn að bera fram fyrirspurn til einhvers eða einhverra sem hugsanlega þekktu steininn og þá notkun hans eða sögu“, segir Úlfar.
„Þegar ég var að rita síðustu grein mína um hugsanlega vegagerð um Hallsteinsnes og Teigsskóg opnaði ég myndaöskjuna frá fyrrgreindri ferð minni til að rifja upp og glöggva mig á aðstæðum. Steinninn er best kominn þar sem hann er en annars hugsanlega á bátasafninu hjá ykkur á Reykhólum ef hann tengist bátum og meðferð þeirra.“
Ef einhverjir kunna deili á steininum og vita eða átta sig á því til hvers hann hefur verið notaður, þá eru þeir beðnir að greina frá því hér í athugasemdunum. Og þó að lesendur viti þetta ekki, þá eru tilgátur vel þegnar.